Man Utd og Liverpool vilja Cherki - Arsenal skoðar Coman - Tottenham og Man Utd vilja markvörð Frankfurt - Chelsea reyndi við Van Dijk - Garnacho...
   fim 17. apríl 2025 21:07
Brynjar Ingi Erluson
Evrópudeildin: Tottenham í undanúrslit - Framlengt á Old Trafford eftir frábæra endurkomu Lyon
Dominic Solanke kom Tottenham áfram
Dominic Solanke kom Tottenham áfram
Mynd: EPA
Nico Williams hjálpaði Athletic í undanúrslit
Nico Williams hjálpaði Athletic í undanúrslit
Mynd: EPA
Man Utd glutraði niður tveggja marka forystu
Man Utd glutraði niður tveggja marka forystu
Mynd: EPA
André Onana er að eiga flotta frammistöðu gegn Lyon
André Onana er að eiga flotta frammistöðu gegn Lyon
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Tottenham er komið áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar eftir að hafa lagt Eintracht Frankfurt að velli, 1-0, í Þýskalandi í kvöld. Manchester United kastaði frá sér tveggja marka forystu hjá Lyon og er sá leikur á leið í framlengingu á Old Trafford.

Tottenham gerði 1-1 jafntefli á heimavelli sínum en náði að kreista fram nauman sigur í kvöld.

Dominic Solanke skoraði markið sem kom Tottenham í undanúrslitin eftir að James Maddison fiskaði víti undir lok fyrri hálfleiksins. Solanke skoraði úr vítinu.

Snemma í síðari hálfleik vildu Frankfurt-menn fá vítaspyrnu er Hugo Ekitike datt í teignum eftir viðskipti sín við Cristian Romero. Skoðun VAR hjálpaði ekki máli Frankfurt og vítinu veifað frá.

Rasmus Christensen fékk tvö dauðafæri á lokakaflanum en fór illa með þau og þá var Guglielmo Vicario vel á verði í markinu. Markverðir ensku úrvalsdeildarinnar að svara ágætlega fyrir slaka frammistöðu í undanförnum leikjum.

Mark Solanke dugði Tottenham til að komast í undanúrslitin og þar verða einnig Athletic og Bodö/Glimt.

Athletic vann 2-0 sigur á Rangers á Spáni. Oihan Sancet, besti maður Athletic, skoraði úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og bætti Nico Williams við öðru til að senda Athletic áfram þegar tíu mínútur voru eftir.

Góður samanlagður 2-0 sigur hjá Athletic sem mætir Man Utd eða Lyon í undanúrslitum.

Man Utd glutraði niður tveggja marka forystu og Bodö/Glimt hársbreidd frá sögulegum áfanga

Tveir leikir eru á leið í framlengingu. Manchester United missti niður tveggja marka forystu gegn Lyon og er staðan nú í einvíginu 4-4 þegar búið er að flauta til loka venjulegs leiktíma.

United-liðið spilaði frábæran fótbolta í fyrri hálfleik og uppskar tvö mörk.

Eftir gott samspil var það Alejandro Garnacho sem fékk boltann áður en hann tók eina snögga hreyfingu inn í teiginn og lagði síðan boltann á Manuel Ugarte sem skoraði úr miðjum teignum.

Á lokamínútum fyrri hálfleiks kom annað markið eftir langa sendingu Harry Maguire á Diogo Dalot. Portúgalinn náði að hrista af sér varnarmann Lyon áður en hann lagði boltann meðfram grasinu og í stöng og inn.

Kamerúnski markvörðurinn André Onana kom aftur inn í lið United eftir að hafa verið hvíldur í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Hann gerði tvenn mistök sem kostuðu United í fyrri leiknum gegn Lyon, en það var allt annað að sjá til hans í þessum leik.

Hann átti hverja mikilvægu vörsluna á fætur annarri, en gat lítið gert í endurkomu Lyon.

United lagðist alltof lágt til baka sem kostaði það tvö mörk. Corentin Tolisso skoraði með skalla eftir góða sókn Lyon og þá gerði Nico Tagliafico seinna markið.

Tagliafico fékk boltann vinstra megin í teignum og náði klaufalegu skoti sem Onana varði út í teiginn á Alexandre Lacazette sem náði að fylgja vel á eftir. Boltinn var kominn inn fyrir línuna í skoti Tagliafico og fær hann því markið.

Undir lok venjulegs leiktíma fékk Tolisso að líta sitt annað gula spjald og þar með sendur í sturtu. Staðan hnífjöfn og framlenging hafin eins og á Ítalíu.

Bodö/Glimt var nálægt því að skrá sig í sögubækurnar. Lazio var með öll tök á leiknum og komst í forystu á 21. mínútu í gegnum Taty Castellanos.

Lazio pressaði áfram í síðari hálfleik og þegar lítið var eftir af leiknum kom annað markið gegn svekktum Norðmönnum en það var varamaðurinn Tijjani Noslin sem gerði markið á þriðju mínútu í uppbótartíma.

Framlengt þar og gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman í síðustu leikjum kvöldsins.

Lazio 2 - 0 Bodo-Glimt (Framlengt)
1-0 Valentin Castellanos ('21 )
2-0 Tijjani Noslin ('90 )

Eintracht Frankfurt 0 - 1 Tottenham (1-2, Tottenham áfram)
0-1 Dominic Solanke ('43 , víti)

Athletic 2 - 0 Rangers (Samanlagt 2-0)
1-0 Oihan Sancet ('45 , víti)
2-0 Nico Williams ('80 )

Manchester Utd 2 - 2 Lyon (Framlengt)
1-0 Manuel Ugarte ('10 )
2-0 Diogo Dalot ('45 )
2-1 Corentin Tolisso ('71 )
2-2 Nicolas Tagliafico ('78 )
Rautt spjald: Corentin Tolisso, Lyon ('89)
Athugasemdir
banner
banner