Napoli reynir aftur við Garnacho - Arsenal ekki að ná að semja við Sporting um Gyökeres - Kudus í læknisskoðun hjá Spurs
   sun 17. júlí 2022 18:24
Brynjar Ingi Erluson
EM kvenna: Holland og Svíþjóð sigldu örugglega inn í 8-liða úrslitin
Kvenaboltinn
Svíar unnu C-riðil eftir 5-0 sigur á Portúgal
Svíar unnu C-riðil eftir 5-0 sigur á Portúgal
Mynd: EPA
Ríkjandi meistarar Hollands fara í 8-liða úrslit Evrópumótsins
Ríkjandi meistarar Hollands fara í 8-liða úrslit Evrópumótsins
Mynd: EPA
Holland og Svíþjóð bókuðu í kvöld sæti sín í 8-liða úrslitum Evrópumótsins á Englandi en Hollendingar unnu Sviss, 4-1, á meðan Svíþjóð gjörsigraði Portúgal, 5-0.

Það var mikil spenna í riðlinum fyrir lokaumferðina en Portúgal og Sviss áttu möguleika á að komast áfram en þá þurftu þau að vinna sína leiki.

Holland og Svíþjóð voru bæði með 4 stig og því dugði jafntefli til að komast áfram en þjóðirnar sættu sig ekki við neitt minna en sigur í dag.

Leikur Hollands og Sviss var töluvert meira spennandi en hinn leikur riðilsins. Hollendingar komust yfir á 49. mínútu eftir sjálfsmark frá Önu-Mariu Crnogorcevic áður en Géraldine Reuteler jafnaði fjórum mínútum síðar.

Það var ekki fyrr en á 84. mínútu sem Holland gekk á lagið og kláraði leikinn. Gaelle Thalmann, markvörður Sviss, hafði átt stórkostlegan leik, en gleymdi sér aðeins og hljóp af línunni og ætlaði að kýla fyrirgjöf í burtu en þá var Romée Leuchter mætt til að skalla yfir hana og í netið.

Victoria Pelova gerði þriðja markið nokkrum mínútum síðar áður en Leuchter gerði út um leikinn með fjórða marki Hollands, sem er nú komið í 8-liða úrslit.

Svíþjóð labbaði á meðan yfir Portúgal, 5-0. Filippa Angeldal skoraði á 21. mínútu með góðu skoti úr teignum eftir hornspyrnu og svo gerði hún annað mark sitt á 45. mínútu eftir vel útfærða aukaspyrnu.

Portúgalska liðið var í þvílíku basli með föstu leikatriðin hjá Svíum og kom þriðja markið seint í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir hornspyrnu. Carole Costa stýrði þá boltanum í eigið net og staðan í hálfleik 3-0.

Sænska liðið var ekki hætt. Kosovare Asllani kom liðinu í 4-0 með marki úr vítaspyrnu áður en Stine Blackstenius skoraði fimma og síðasta mark liðsins undir lok leiks.

Svíar hafna í 1. sæti riðilsins með 7 stig en liðið er með betri markatölu en Holland sem hafnar í 2. sæti.

Úrslit markaskorarar:

Svíþjóð 5 - 0 Portúgal
1-0 Filippa Angeldal ('21 )
2-0 Filippa Angeldal ('45 )
3-0 Carole Costa ('45 , sjálfsmark)
4-0 Kosovare Asllani ('54 , víti)
4-1 Stina Blackstenius ('90 )

Sviss 1 - 4 Holland
0-1 Ana-Maria Crnogorcevic ('49 , sjálfsmark)
1-1 Géraldine Reuteler ('53 )
1-2 Romée Leuchter ('84 )
1-3 Victoria Pelova ('90 )
1-4 Romée Leuchter ('90 )
Athugasemdir
banner