Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 17. september 2020 21:56
Fótbolti.net
Ian Jeffs: Ekki hægt að biðja um meira
Icelandair
Ian Jeffs stýrði íslenska landsliðinu í kvöld
Ian Jeffs stýrði íslenska landsliðinu í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ian Jeffs, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins , stýrði Íslandi til 9-0 sigurs á Lettlandi í kvöld en Jón Þór Hauksson, aðalþjálfari, tók út leikbann. Ian Jeffs sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir leik og var eðlilega alsæll með úrslit kvöldsins.

„Við vorum ekki að pæla neitt of mikið í Lettunum. Við ætluðum bara að hugsa um okkar leik og byrja leikinn af krafti. Mér fannst okkar leikplan ganga mjög vel upp í fyrri hálfleik. Við ætluðum að sækja upp kantsvæðin og vorum búin að leggja mikið upp úr því fyrir leik. Það gekk mjög vel. Við skorum sex mörk og áttum fleiri færi. Það er ekki hægt að biðja um meira en það,“ sagði Ian Jeffs um leikinn í kvöld og aðspurður um hvort að lettneska liðið hefði mætt veikara til leiks en hann átti von á.

Ísland leiddi 6-0 í hálfleik en liðið missti aðeins dampinn í þeim síðari og síðustu þrjú mörk leiksins létu bíða eftir sér eftir mikla flugeldasýningu í fyrri hálfleik.

„Seinni hálfleikur þróast eins og hann gerir en það er oft þannig í svona leik þar sem þú ert búinn að skora mörg mörk í fyrri hálfleik að það dettur aðeins niður spilið í seinni hálfleik en við náðum að rífa okkur aftur upp síðasta korterið og skora þrjú mörk. Frábær sigur og mjög góð spilamennska í dag.“

Hafði komandi leikur gegn Svíþjóð einhver áhrif á hvernig íslenska liðið nálgaðist síðari hálfleikinn?

„Ekki neitt. Allur undirbúningur fyrir Lettaleikinn snerist um hann,“ sagði Ian og bætti við:

„Það sem við ræddum í hálfleik var bara að halda áfram. Gera hlutina einfalt, fylla boxið og koma með fyrirgjafir. Við vorum ekkert að pæla í Svíaleiknum. Undirbúningur fyrir hann byrjar núna.“

Tveir leikmenn léku sinn fyrsta A-landsleik í kvöld og þjálfarinn var ánægður með framlag þeirra begggja.

„Sveindís (Jane Jónsdóttir) átti mjög góðan fyrri hálfleik og svo var hún bara eins og aðrir leikmenn, datt aðeins niður í upphafi seinni hálfleiks en kom sterk inn í þetta síðasta korterið. Glæsilegt fyrir hana að skora mörk í fyrsta landsleiknum sínum.“

„Barbára (Sól Gísladóttir) kom bara vel inn í seinni hálfleikinn. Það er frábært fyrir íslenska landsliðið að fá þessa leikmenn inn í hópinn. Það er bara geggjað.“


Ingibjörg Sigurðardóttir meiddist á ökkla snemma í síðari hálfleik og þurfti að fara af velli. Ian Jeffs bindur vonir við að meiðsli hennar séu ekki alvarleg.

Næst á dagskrá er hörkuleikur gegn Svíþjóð á þriðjudag. Ljóst er að um töluvert erfiðara verkefni verður að ræða enda sænska liðið eitt það sterkasta í heimi.

„Við erum að fara að spila á móti toppliði næst. Lið sem fékk brons á síðasta HM er á 5. sæti á FIFA heimslistanum. Þjálfarateymið þarf að fara vel yfir þeirra styrkleika og veikleika og sníða gott leikplan fyrir þann leik. Við erum auðvitað búin að ræða þetta innan þjálfarateymisins en erum ekkert búnir að tala neitt við leikmenn um hvernig við ætlum að tækla næsta verkefni. Við byrjum strax á morgun að undirbúa þær fyrir leikinn.“

Ian var að lokum spurður hvernig honum hefði fundist að stýra sínum fyrsta A-landsleik en hann fékk tækifæri til þess í fjarveru Jóns Þórs þjálfara.

„Þetta var rosalega gaman. Við í þjálfarateyminu vorum búin að undirbúa okkur vel fyrir leikinn í kvöld. Þjálfarateymið okkar er mjög sterkt og þetta var rosalega gaman. Hann kemur sterkur inn í næsta verkefni.“
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner