„Ég vildi koma heim til að spila alvöru fótbolta, komast í gott lið, gott umhverfi, frábæra þjálfara og gott þjálfarateymi," sagði Atli Barkarson við Fótbolta.net í dag eftir að hafa gert þriggja ára samning við Víking Reykjavík.
Atli sem er 19 ára á árinu hefur verið hjá atvinnumannaliðum erlendis undanfarin þrjú ár, fyrst tvö hjá Norwich og svo hjá Fredrikstad í Noregi.
„Það er betra að koma hingað og spila en að vera í akademíu og spila leiki sem skipta ekki miklu máli. Leikirnir hérna skipta miklu máli og því vil ég koma hingað núna og markmiðið er svo að fara aftur út," sagði Atli.
Arnar Gunnlaugsson gerði Víking að bikarmeisturum í fyrra og hefur haft gott orð á sér fyrir að leyfa ungum mönnum að fá tækifæri með liðinu.
„Ég fór á fund með Arnari og strax eftir fundinn hringdi ég í Óla Garðars umboðsmann minn og sagði að þetta væri liðið sem mig langaði að fara í. Það er mjög spennandi að vinna með Guðjóni styrktarþjálfara og öll hugmyndafræði Arnars. Hann hefur sýnt að hann gefur ungum mönnum séns og ég er að leitast eftir að spila. Þess vegna vildi ég koma hingað."
„Það voru nokkur önnur lið í Pepsi Max-deildinni sem heyrðu í mér en ég vil ekki segja hvaða lið það voru."
Nánar er rætt við Atla í sjónvarpinu að ofan.
Athugasemdir