mið 18. mars 2020 12:15
Miðjan
Lárus flúði æsta stuðningsmenn: Staðan var stjórnlaus
Lárus Guðmundsson.
Lárus Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lárus Guðmundsson er gestur Hafliða Breiðfjörð í Miðjunni í þessari viku. Lárus átti langan og farsælan feril sem atvinnu og landsliðsmaður.

Í byrjun atvinnumannaferilsins varð Lárus bikarmeistari í Belgíu með liði Thor Waterschei en hann skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á Waregem í úrslitaleik.

Fagnaðarlætin voru mikil á sérstöku hófi sem var haldið eftir leik. Raunar voru fagnaðarlætin það mikil að Lárus þurfti að flýja af vettvangi!

„Liðið (stuðningsmennirnir) byrjaði að nálgast mig og það vildu allir fá eiginhandaráritun. Á einu augnabliki var þetta múgsefjun. Ég verð viðskilja við konuna mína og systur mína sem voru á staðnum," sagði Lárus í Miðjunni.

„Lýðurinn þrengir að mér og smá saman verður staðan stjórnlaus. Mér fer að líða illa í þessari stöðu. Það er þrengt að mér og ég hleyp út fyrir. Þá byrjaði liðið að elta mig. Það var tryllingur í gangi."

„Liðið hafði verið að drekka í nokkra klukkutíma og þetta var stjórnalaust ástand. Ég tók sprettinn út á götu og var með svona 20 metra forskot á liðið því ég var fljótari að hlaupa. Ég stoppa bíl hjá eldri hjónum, stekk í aftursætið og bið þau að keyra mig í burtu."

„Þetta endaði á því að ég varð að fara heim og gat ekki tekið þátt í þessum fagnaðarlátum. Ég reyndi ekki að fara aftur. Þetta var geggjuð staða. Það er ekki hægt að lýsa þessu. Konan mín og systir mín komu síðan heim tveimur klukkutímum síðar."


Lárus ræddi meira um fagnaðarlætin í Miðjunni og það sem átti sér stað áður en hann varð að flýja. „Það kom þarna miðaldra kona sem var 20-30 árum eldri en ég á þessum tíma. Hún reif frá sér kjólinn og vildi að ég skrifaði á brjóstin á sér."

Hér að neðan má hlusta á viðtalið.
Miðjan - Lárus Guðmunds um bikartitla, mútugreiðslur og fleira
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner