mið 18. mars 2020 17:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Upprifjun: Einhver ótrúlegasta U-beygja sem sést hefur
Deeney skoraði markið á hinum enda vallarins.
Deeney skoraði markið á hinum enda vallarins.
Mynd: Getty Images
Knockaert klúðraði vítaspyrnunni.
Knockaert klúðraði vítaspyrnunni.
Mynd: Getty Images
Nú þegar kórónuveiran hindrar það að fótbolti sé spilaður þá er gaman að rifja upp skemmtileg augnablik í fótboltasögunni.

Árið 2013 og Leicester er að spila gegn Watford í undanúrslitum umspilsins í Championship-deildinni. Þetta var síðari leikur liðanna og sæti í úrslitunum á Wembley var í húfi. Það var uppbótartími og staðan var 2-1 fyrir Watford, samanlagt 2-2 í einvíginu. Leicester átti vítaspyrnu og gat Anthony Knockaert sent Leicester á Wembley.

Manuel Almunia í marki Watford las hins vegar Knockaert eins og opna bók og varði vítaspyrnuna. Hann varði svo frákastið líka. Watford geystist upp í sókn og endaði á því að skora og vinna einvígið á því marki.

Nokkrum sekúndum eftir að Knockaert fékk tækifæri til að vinna einvígið fyrir Leicester þá var Troy Deeney, sóknarmaður Watford, að hoppa upp í stúku í rosalegum fagnaðarlátum með stuðningsmönnum sínum. Deeney sem hafði ekki byrjað tímabilið því hann var í fangelsi fyrir líkamsárás.

Það sýnir það fátt betra en þessar sekúndur hvað fótbolti er mögnuð og óútreiknanleg íþrótt.

Í grein frá 2016 vitnar Guardian í Deeney sem segir: „Þegar ég verð eldri þá get ég litið til baka á þetta. Jafnvel þó að við töpuðum gegn Crystal Palace í úrslitunum þá eiga stuðningsmennirnir enn þennan dag... þetta mark sannar það að leikurinn er aldrei búinn fyrr en hann er búinn. Þetta mark sýnir töfrana í fótboltanum og hversu fallegur leikurinn er. Þess vegna elskum við leikinn, út af svona augnablikum."

Eins og Deeney bendir á, þá tapaði Watford í úrslitaleiknum gegn Crystal Palace, þó að bæði þessi félög, Watford og Leicester séu í úrvalsdeildinni í dag. Leicester vann meira að segja úrvalsdeildina árið 2016 sem er annað mjög gott dæmi um hvað fótbolti er mögnuð og óútreiknanleg íþrótt.

Óhætt er að mæla með þessu myndbandi sem er hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner