Helgi Guðjónsson skoraði sigurmark Víkings gegn FH í opnunarleik Bestu deildarinnar í kvöld. Helgi þekkir það ágætlega að skora mikilvæg mörk fyrir Víking og sagði þjálfari hans, Arnar Gunnlaugsson, að Helgi væri hetja í Víkinni eftir hans framlag á síðasta tímabili.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 1 FH
Helgi var til viðtals eftir leikinn í kvöld. „Það er gott að ná að klára þetta, við fengum högg í byrjun og vorum smá tíma að koma okkur í gang. Svo þegar við fáum fyrsta markið, frá Ara, þá náum við okkar takti aftur og það var helvíti sætt að ná að sigla þessu heim í seinni."
Kristall Máni Ingason átti fyrirgjöfina á Helga í markinu. Vissi Helgi að hann fengi boltann til sín?
„Já, maður þekkir hreyfingarnar hans og ég var byrjaður að taka hlaupið af fjærstönginni. Síðan kemur boltinn og maður stekkur upp og reynir að fleyta honum áfram."
Helgi var í byrjunarliði Víkings líkt og í leiknum gegn Breiðabliki í Meistarakeppni KSÍ. „Tilfinningin er góð, maður vill alltaf fá að spila og maður reynir að setja pressu á þjálfarann að fá að spila. Maður verður að nýta sénsana þegar maður fær þá og það var gott að ná að setja eitt í dag."
Beint eftir markið var Helgi tekinn af velli. Víkingar voru byrjaðir að undirbúa skiptinguna áður en þeir fengu svo hornið sem Helgi skoraði eftir.
„Ég hafði ekki hugmynd um að það átti að taka mig út af. Það var fínt að fá ferskar lappir inn og ná að sigla þessu. Það var smá skellur, sérstaklega þegar maður var nýbúinn að skora en maður verður bara að taka því."
„Samkeppnin er það sem menn þurfa að vera tilbúnir í. Ef þú ætlar að vera í toppliði þá á ekki að vera hægt að labba bara um og geta ekki neitt en fá samt alltaf að spila. Samkeppnin hjá okkur er þannig að ef menn eru ekki á tánum þá fær næsti að spila," sagði Helgi að lokum.
Athugasemdir