Maí er mánuður þar sem knýja þarf fram úrslit fjölda leikja, og þar með sigurvegara viðkomandi móta, í einum leik, t.d. bikarúrslitaleikja hjá stærstu þjóðunum, úrslitaleikja Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar, umspilsleikja í ensku deildunum o.s.frv. En þegar mótareglur gera ráð fyrir að fenginn sé sigurvegari í einum leik, eða þegar samanlögð úrslit leikja heima og heiman eru jöfn, heimila knattspyrnulögin einungis eftirfarandi aðferðir til að skera úr um sigurvegarana:
• Regluna um mörk á útivelli.
• Framlengingu.
• Vítaspyrnukeppni (með eða án undangenginnar framlengingar).
• Regluna um mörk á útivelli.
• Framlengingu.
• Vítaspyrnukeppni (með eða án undangenginnar framlengingar).
Hljómar einfalt, ekki satt, en það er heilmikið "smáaletur" sem hafa þarf í huga við þessa framkvæmd alla, og þá sérstakelga þegar grípa þarf til vítaspyrnukeppninnar. Gott dæmi um það kom upp í leik Írlands og Hollands í 8-liða úrslitum EM U17 drengja, sem nú fer fram í Englandi, en þar var írska markverðinum vísað af leikvelli eftir að hafa varið síðustu vítaspyrnuna. Nánar um það seinna í þessum pistli.
Kíkjum fyrst á hvað lögin segja um framkvæmd vítaspyrnukeppni. Fyrst þarf að ákveða á hvort markið skuli spyrna, því öll kepnnin fer jú fram á sama markið. Það getur haft töluverð sálræn áhrif á leikmenn þegar áðdáendahópa liðanna er að finna á bak við sitt hvort markið og því ber dómaranum fyrst að varpa hlutkesti um hvort markið verður fyrir valinu (en þetta ákvæði er tiltölulega nýtt í lögunum). Í þessu tilfelli eru það hins vegar ekki fyrirliðarnir sem fá að velja markið, heldur fylgjast þeir bara með, en dómarinn ákveður sjálfur hvor hlið peningsins tengist hvoru marki í hlutkestinu. Ef aðrar aðstæður (t.d. veðrátta eða öryggismál) mæla þessu hins vegar mót, eða ef völlurinn er í betra ástandi öðrum megin, hefur dómarinn það þó í valdi sínu að sleppa þessu hlutkesti og getur einfaldlega ákveðið sjálfur á hvort markið skuli spyrnt.
Í sjálfri vítaspyrnukeppninni taka liðin síðan í fyrstu lotu fimm spyrnur hvort, annað hvort með hefðbundnu aðferðinni þar sem liðin skiptast á um að spyrna eða með svokallaðri ABBA-spyrnuröð, þ.e. að eftir fyrstu spyrnuna skiptast liðin á eftir hverjar tvær spyrnur (en sú aðferð hefur þegar tekið gildi á Íslandi og víðar þó hún taki ekki gildi á alþjóðavettvangi fyrr en á næsta ári og verður hún því t.a.m. ekki notuð á HM í Rússlandi í sumar). Til að ákveða hvort liðið taki fyrstu spyrnuna skal dómarinn síðan varpa hlutkesti að nýju, en nú ákveður fyrirliði liðsins sem vinnur hlutkestið hvort lið hans eða mótherjanna tekur fyrstu spyrnuna (sem einnig er nýleg breyting á lögunum því áður bar liðinu sem vann hlutkestið að spyrna fyrst).
Hverjir eru síðan gjaldgengir til þátttöku í vítaspyrnukeppninni? Það eru þeir leikmenn sem voru inni á vellinum eftir að framlengingunni lauk (auk þeirra sem hugsanlega eru tímabundið utan vallar t.d. vegna meðhöndlunar meiðsla). Ekki má skipta inn á varamönnum á meðan á vítaspyrnukeppni stendur, með þeirri undantekningu þó að varamaður má koma í stað markvarðar sem meiðist í keppninni svo fremi sem liðið hefur ekki áður notað allar heimilar skiptingar sínar. Einnig getur komið upp sú staða að annað liðið sé fáliðaðra á vellinum við lok leiksins, en þá skal hitt liðið fækka sínum spyrnendum til samræmis við það.
Og þá er loks hægt að byrja að spyrna. Margir standa í þeirri meiningu að liðin þurfi fyrir upphaf vítaspyrnukeppninnar að tilgreina sína fimm spyrnendur í fyrstu lotu keppninnar og jafnvel í hvaða röð þeir komi til með að spyrna, en svo er ekki. Um spyrnurnar sjálfar gilda síðan sömu ákvæði og gilda um framkvæmd vítaspyrna almennt skv. 14. grein laganna að því fráskildu að í vítaspyrnukeppnum skulu allir leikmenn aðrir en markverðirnir tveir og spyrnandinn hverju sinni halda sig innan miðjuhringsins. Dómarinn þarf því ekki að líta eftir því hvort einhver samherja eða mótherja spyrnandans fari of snemma inn í teiginn og getur því einbeitt sér að spyrnandanum og markverðinum, sem geta þó framið ýmsar hundakúnstir.
Spyrnandinn með ólöglegri "gabbspyrnu" og markvörðurinn með því að færa sig of snemma út af marklínunni. Þeim er þó báðum heimilt að reyna að trufla hinn í þessu "maður-á-mann" einvígi sínu, spyrnandinn með gabbhreyfingum í atrennu sinni og markvörðurinn með því að hreyfa sig að villd eftir marklínunni.
Flestum knattspyrnuaðdáendum er væntanlega í fersku minni hinar ýktu (en löglegu) hreyfingar Dudeks, markvarðar Liverpool, eftir marklínunni í sögulegum úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti AC Milan á sínum tíma. Bruce Grobbelar sýndi líka iðulega skemmtilega takta á marklínunni er hann tókst á við vítaspyrnur.
En spyrnandinn hefur líka talsvert frelsi í sínum aðgerðum. Margir telja að honum sé óheimilt að stöðva alveg einhvers staðar í atrennu sinni, en það er honum fullkomlega heimilt (og hefur aldrei verið bannað). Hann má hins vegar ekki framkvæma "gabbspyrnu" að atrennu sinni lokinni. Væri það heimilt myndu þeir sem taka vítaspyrnur að sjálfsögðu alltaf taka "gabbspyrnur" í þeim tilgangi að narra markverðina af stað út af línunni, því þá gæti niðurstaðan aldrei verið verri fyrir þá en sú að endurtaka bæri spyrnurnar vegna brota markvarðanna. Framkvæmi spyrnandinn "gabbspyrnu" í lok atrennu sinnar skal spyrnan því dæmd ógild eða metin rétt eins og hann hafi brennt henni af, með nákvæmlega sama hætti og gert væri í venjulegum leik, en þá væri dæmd á hann óbein aukaspyrna ásamt gulu spjaldi.
En hvenær telst vítaspyrna vera afstaðin? Það er þegar boltinn stöðvast alveg eða fer úr leik. Auðvelt er hins vegar að fletta upp á YouTube ýmsum spaugilegum dæmum þess þegar markvörður, teljandi sig hafa varið, eða eftir að boltinn hefur farið í markslána, fagnar ógurlega á meðan að boltinn skrúfast (eða fýkur) til baka í markið.
Um leið og annað liðanna hefur síðan skorað það mörg mörk í fyrstu lotu vítaspyrnukeppninnar að hitt geti ekki náð því er keppninni lokið. Séu liðin hins vegar jöfn eftir fyrstu fimm spyrnunnar bætist við ein spyrna í einu með með sama munstri og áður þar til annað liðið skorar en hitt ekki, með nýjum spyrnendum hverju sinni. Fyrir kemur að taka þurfi svo margar spyrnur að allir þar til bærir leikmenn hafi tekið spyrnu, en þá skal haldið áfram, þó ekki endilega með sömu röð spyrnenda hvors liðs um sig og í fyrri umferð. Þar eiga liðin frjálst val (en þannig gæti t.d. sá sem tekur 11. spyrnu liðs A í raun einnig tekið 12. spyrnu þeirra).
Ýmislegt fleira forvitnilegt leynist í "smáaletrinu", t.a.m. ef leikmaður sem yfirgefur völlinn á meðan á vítaspyrnukeppninni stendur (t.d. til þess að fara á salernið) skilar sér ekki tímanlega til baka til þess að taka síðustu vítaspyrnu síns liðs skal spyrnan dæmd ógild með sama hætti og hann hafi brennt henni af.
En víkjum nú aftur að leiknum á milli Írlands og Hollands í U17 sem ég nefndi fyrr í þessum pistli. Írski markvörðurinn varði nefnilega síðustu spyrnu Hollendinga, en braut af sér með því að fara of snemma fram af marklínunni (að mati aðstoðardómarans sem lyfti flaggi sínu skýrt til merkis um það). Harður dómur, fannst mörgum eftir að hafa séð "klippu" af atvikinu, og hreyfing markvarðarins fram af marklínunni síður en svo meira áberandi en gengur og gerist. En hvað um það, lögin segja að endurtaka beri spyrnuna vegna þessa brots markvarðarins, en einnig að sýna beri honum gula spjaldið fyrir brot sitt. Aftur er hér um að ræða tiltölulega nýtt ákvæði í lögunum sem ég held að margir hafi ekki gert sér grein fyrir, en þar sem írski vinur okkar hafði því miður hlotið aðra áminningu fyrr í leiknum fékk hann þarna sitt annað gula spjald og þar með brottvísun. Ekki er heimilt skv. lögunum að setja varamann inn á fyrir markvörð sem rekinn hefur verið af velli (einungis má setja inn á varamann fyrir markvörð sem meiðist eins og áður sagði) og því þurftu Írar að setja í markið einn af þeim útileikmönnum sem voru gjaldgengir til þátttöku við upphaf vítaspyrnukeppninnar. Hollendingar skoruðu síðan úr sinni síðustu (endurteknu) vítaspyrnu og komust áfram. Mikið drama, en það getur borgað sig að hafa bæði þekkingu og stjórn á öllum smáatriðunum.
Athugasemdir