Óskar Örn Hauksson var í haust ráðinn styrktarþjálfari Víkings. Í viðtali við Fótbolta.net vildi Óskar ekki gefa það út að hann væri hættur í fótbolta.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var til viðtals í dag og var hann spurður út í Óskar. Eru einhverjar líkur á því að áhorfendur sjái Óskar í Víkingstreyju?
„Ég myndi ekki útiloka það. Hann var með á æfingu um daginn, var langbesti leikmaðurinn."
„Við erum ekki að horfa á það, það er ekki krafa um það, en ég myndi ekki útiloka það," sagði Arnar.
Óskar, sem er 39 ára, er leikjahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi. Hann lék með Grindavík á síðasta tímabili eftir að hafa þar á undan leikið með Stjörnunni og KR þar sem hann var langlengst af á sínum ferli.
Athugasemdir