Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 19. febrúar 2024 23:17
Ívan Guðjón Baldursson
Guardiola búinn að biðja Kalvin Phillips afsökunar
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kalvin Phillips greindi frá því í viðtali á dögunum hvernig gagnrýni frá Pep Guardiola hafði neikvæð áhrif á hans persónulega líf eftir HM í Katar, sem fór fram í desember 2022.

Eftir að hafa ferðast með Englandi til Katar mætti Phillips alltof þungur til æfinga hjá Manchester City. Guardiola var ekki með Phillips í leikmannahópinum þegar enski boltinn fór aftur af stað og var hann spurður hvers vegna.

Spænski þjálfarinn svaraði með sannleikanum og sagði að Phillips hafi komið til baka frá HM í yfirþyngd og væri þess vegna ekki með.

Phillips var ósáttur með hvernig Guardiola orðaði svarið til fréttamanna, þar sem hann var aðeins 1,5kg yfir þeirri þyngd sem hann átti að vera í. Hann segir þessi ummæli hafa haft mikil áhrif á sjálfstraustið sitt og að fjölskyldumeðlimir hafi brugðist reiðilega við.

„Mér þykir það leitt og ég hef beðið hann afsökunar. Ég biðst afsökunar. Mér þykir þetta svo leitt," sagði Guardiola þegar hann var spurður út í atvikið á fréttamannafundi í kvöld. Þar svaraði þjálfarinn spurningum fyrir viðureign Man City gegn Brentford sem fer fram annað kvöld.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég segi eitthvað við fjölmiðla án þess að tala við leikmanninn fyrst. Þetta hefur gerst einu sinni á átta árum hérna og mér þykir það leitt."

Hinn 28 ára gamli Phillips er hjá West Ham á láni út tímabilið en lánsdvölin hjá Hömrunum hefur byrjað hörmulega, þar sem hann hefur verið meðal skúrkanna í þremur leikjum af fjórum frá komu sinni til félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner