Valenciennes tók á móti Sochaux í frönsku B-deildinni um helgina og gerðu liðin markalaust jafntefli.
Leikurinn hefur fengið mikla fjölmiðlaathygli vegna atviks sem átti sér stað skömmu eftir lokaflautið. Ousseynou Thioune, miðjumaður Sochaux, er sakaður um að hafa bitið markvörð Valenciennes, Jerome Prior, á kinnina.
„Jerome er með virkilega stórt bitfar á kinninni. Þetta er alvarlegt atvik," sagði Eddy Zdziech, forseti Valenciennes, við AFP fréttastofuna.
Það virðist ekki leika vafi á því að atvikið hafi átt sér stað en Omar Daf, þjálfari Sochaux, tjáði sig að leikslokum og reyndi að koma sínum manni til varnar. Hann ýjaði að því að markvörðurinn hafi verið að biðja um vandræði með hegðun sinni en útskýrði ekki nánar.
„Leikmaður brjálast ekki án þess að honum sé ögrað. Ég heyrði móðganir að leikslokum en það er ljóst að menn verða að læra að hemja sig," sagði Daf.
Athugasemdir