Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 19. nóvember 2018 17:30
Gylfi Þór Orrason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Knattspyrnulögin - Hvaða breytingar eru í farvatninu?
Gylfi Þór Orrason
Gylfi Þór Orrason
Dómari að störfum.
Dómari að störfum.
Mynd: Benóný Þórhallsson
Á fundi tækni- og ráðgjafarnefnda IFAB (Alþjóðanefndar knattspyrnusambanda) 6. nóvember sl. var farið yfir árangurinn af nokkrum tilraunum sem í gangi hafa verið með breytingar á knattspyrnulögunum. Þær eru þessar helstar:

1. Leikmönnum sem skipt er af velli ber að fara út af við næstu útlínu hans.
2. Gul og rauð spjöld má sýna forráðamönnum á boðvangi. Þessi tilraun var m.a. innleidd á Íslandi á nýliðnu keppnistímabili.
3. Leikmenn mega snerta boltann innan eigin vítateigs eftir markspyrnur og aukaspyrnur þaðan. Sóknarmennirnir verða eftir sem áður að halda sig utan vítateigsins þar til boltinn hefur farið út úr vítateignum eða verið snertur af mótherja innan hans.
4. Leikmannaskipti í viðbótartíma séu óheimil.
Nefndirnar voru sammála um að leggja til við stjórn IFAB að þrjár fyrsttöldu tillögurnar verði leiddar í lög, en sú fjórða fékk hjá þeim engan hljómgrunn. Því verður að teljast líklegt að IFAB geri viðeigandi breytingar á lögunum þannig að fyrstu þrjár taki gildi f.o.m. 1. júní 2019.

Á fundinum voru einnig ræddar ýmsar hugmyndir til lausnar á "vandamálinu eilífa", þ.e. hvenær snerting handar og bolta skuli teljast viljandi og hvenær ekki. Myndu ekki allir knattspyrnuaðdáendur vilja sjá afdráttarlausari fyrirmæli í lögunum hvað "hendi" varðar? Það myndu a.m.k. allir dómararnir vilja sjá, svo mikið er víst!

Ennfremur voru á fundinum lagðar fram hugmyndir um ýmsar frekari tilraunir til breytinga á lögunum, sem flestar eru hugsaðar til einföldunar og til að draga úr leiktöfum, en þar er sú áhugaverðasta líklega að vítaspyrnur í venjulegum leiktíma verði meðhöndlaðar með sama hætti og í vítaspyrnukeppni. Sem sagt, annað hvort er skorað úr spyrnunni eða ekki, en þannig má losna við öll vandræðin sem því fylgja þegar leikmenn fara of snemma inn í vítateiginn o.s.frv. Misfarist spyrnan verði leikur þannig hafinn að nýju með markspyrnu (ef skotið er framhjá) eða óbeinni aukaspyrnu varnarliðsins (ef spyrnan er varin).

Að síðustu var síðan farið ítarlega yfir árangurinn af "vídeóaðstoðardómgæslu" (VAR) á HM 2018 og í þeim löndum sem þegar hafa tekið VAR í notkun. Engum blöðum er um það að fletta; VAR er komið til að vera.
Athugasemdir
banner