Skotland fær Noreg í heimsókn í lokaleik undankeppni EM í kvöld en stærsta stjarna norska liðsins, Erling Haaland er fjarverandi vegna meiðsla.
Það er ekkert undir í leiknum í kvöld þar sem Skotland er komið á EM en Noregur á enga möguleika á að fara á EM.
Haaland meiddist í æfingaleik gegn Færeyjum fyrir helgi en Steve Clarke þjálfari skoska landsliðsins hefði viljað mæta honum í kvöld.
„Það hefði verið frábært fyrir áhorfendur að sjá leikmann á borð við Haaland. Það hefði verið gott fyrir varnarmennina að máta sig gegn topp framherja en því miður er hann ekki klár í slaginn," sagði Clarke.
„Ef þetta hefði verið leikur sem hefði einhverja þýðingu myndi ég örugglega segja 'já, í skýjunum með að hann sé ekki að spila'. En fyrir þennan leik hefði það verið betra ef hann hefði spilað."