Pulisic, Amorim, Zirkzee, Osimhen, Raphinha, Murillo, Chiesa og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 19. nóvember 2024 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þórdís Elva komin heim frá Svíþjóð og semur við Þrótt (Staðfest)
Þórdís Elva.
Þórdís Elva.
Mynd: Þróttur R.
Þróttur tilkynnti í dag að Þórdís Elva Ágústsdóttir væri búin að skrifa undir tveggja ára samning við félagið. Þórdís kemur í Þrótt frá Växjö, spilaði með liðinu í sænsku úrvalsdeildinni á liðnu tímabili.

Miðjumaðurinn var áður leikmaður Vals og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu tímabilið 2023. Hún er uppalin hjá Haukum og hefur einnig leikið með FH, Fylki og Val á Íslandi.

Þórdís Elva kom við sögu í 24 af 26 leikjum Växjö á nýliðnu tímabili, byrjaði tólf leiki og skoraði tvö mörk. Växjö endaði í 8. sæti deildarinnar. Þórdís Elva var liðsfélagi Bryndísar Örnu Níelsdóttur hjá Växjö.

„Þórdís er öflugur og marksækinn miðjumaður, fædd árið 2000, hún hefur leikið yfir 100 leiki í efstu deild hér á landi og 10 landsleiki með yngri landsliðum Íslands," segir í tilkynningu Þróttar.

„Koma Þórdísar til Þróttar er gríðarlegt gleðiefni og endurspeglar þann metnað sem býr í félaginu þegar kemur að uppbyggingu kvennaknattspyrnunnar. Við væntum mikils af henni, hún er mjög góður leikmaður og á eftir að falla vel inn í okkar samstillta og metnaðarfulla hóp. Velkomin Þórdís," segir Kristján Krjistjánsson sem er formaður knattspyrnudeildar Þróttar.

Þróttur endaði í 5. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili. Ólafur Kristjánsson er þjálfari liðsins.
Athugasemdir
banner
banner