Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   lau 19. desember 2020 15:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Er íslenskur fótbolti í skrúfunni?
Valur varð Íslandsmeistari í sumar.
Valur varð Íslandsmeistari í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valsmennirnir Börkur Edvardsson og Jón Grétar Jónsson skrifuðu sameiginlegan pistil um stöðuna á íslenskum fótbolta sem má lesa í heild sinni hér að neðan.

UEFA uppfærði lista sinn yfir evrópsk félagslið fyrr í þessum mánuði. Lélegur árangur íslenskra félagsliða í Evrópukeppnum undanfarin ár gerir það að verkum að Ísland er í fjórða neðsta sæti listans. Það má því segja að íslensk félagslið séu í „ruslflokki" meðal fótboltaliða Evrópu en þessi staða gerir það að verkum að frá og með tímabilinu 2022 mun Ísland aðeins fá þrjú Evrópusæti frá UEFA í stað fjögurra.

Ef mark er tekið á listanum má segja að aðeins þrjár deildir í Evrópu séu flokkaðar slakari en sú íslenska. Það eru Eistland, Andorra og San Marínó. Ísland er í 52. sæti listans og hefur misst þjóðir eins og Gíbraltar og Færeyjar fyrir framan sig. Færeyingar eru í 47. sæti á listanum.

Pistill Barkar og Jóns
Á undanförnum árum hafa íslensk landslið í knattspyrnu náð frábærum árangri sem eftir hefur verið tekið um allan heim. Í heimsfréttum er gjarnan spurt, hvernig getur jafn fámenn þjóð eins og Ísland náð slíkum árangri og hvaðan kemur allt þetta frábæra knattspyrnufólk?

Árangur kemur ekki af sjálfu sér og því ber að halda til haga að grunnurinn af þessum árangri er unninn í félögunum sjálfum. Það eru íslensku knattspyrnufélögin sem ala upp leikmennina, það eru þau sem móta einstaklinga og það eru þau sem koma leikmönnum til erlendra liða í atvinnumennsku. Á sama tíma hefur árangur íslenskra félagsliða í evrópukeppnum verið dapur og staða efstu deildar hér landi hefur verið í frjálsu falli og er nú í sögulegu lágmarki.

Eru leikmenn að fara of ungir erlendis?

Það er athyglivert að rýna í byrjunarlið karlalandsliðs Íslands á móti Englandi á EM 2016.

Fyrir utan Birki Bjarnason sem nánast hefur leikið erlendis allan sinn ferill var aðeins einn leikmaður sem ekki hafði leikið með meistaraflokki á Íslandi, Gylfi Sigurðsson en hann fór til Reading 16 ára gamall. Meðalaldur leikmanna í þessum leik þegar þeir fóru frá íslenskum knattspyrnuliðum í atvinnumennsku erlendis var um 21 ár. Margir þeirra höfðu leikið í efstu deild á Íslandi og náð þar ákveðnum þroska og öðlast reynslu áður en þeir tóku stóra skrefið.

Undanfarin ár eru mjög ungir leikmenn (16-19 ára) sem fara frá íslenskum knattspyrnuliðum til erlendra liða og oftast undir þeim formerkjum að þeir séu á leið í “atvinnumennsku”. Margir af þessum leikmönnum fara í unglingaakademíur eða til félaga á Norðurlöndum sem mörg hver eru ekki betri en stærstu knattspyrnulið Íslands og bjóða ekki uppá betri aðstöðu né þjálfun. Þessir leikmenn eru seldir fyrir litlar fjárhæðir (4-10mkr) eða engar frá félögunum þó á því séu undantekningar. Sumir af þessum ungu leikmönnum hafa ekki náð að spila leiki í efstu deild á Íslandi né æft að staðaldri með meistaraflokki áður en þeir fara erlendis og eiga þar af leiðandi á hættu á að lenda í talsverðum mótbyr þegar út er komið. Oft sjáum við þessa leikmenn koma til baka eftir einhver ár og ferill þeirra sem knattspyrnumenn hefur í raun tekið skref aftur á bak í samanburði við jafnaldra sína sem leika hér á landi og oftar en ekki hafa þeir flosnað úr námi og þeirra reynsla þ.a.l skilað litlu þegar litið er á stóru myndina. Borið er lof á knattspyrnufélög sem eru hvað duglegust að „selja“ sína ungu leikmenn erlendis en í raun má spyrja sig hvort það eigi ekki frekar að gagnrýna eða lasta þessa aðferð og hvetja félögin, foreldra og leikmenn að staldra aðeins við og velta fyrir sér fleiri möguleikum.

Í þessu samhengi er vert að nefna að sumir landsliðsþjálfarar byrja snemma að hvetja, leikmenn, unglingalandsliðsmenn og yngri leikmenn A-landsliða að fara erlendis og fullyrða jafnvel að það sé nauðsynlegt ef þeir ætli sér að halda sæti sínu landsliðshópnum eða hreinlega komast í hópinn. Þannig mynda umræddir þjálfarar neikvæðan þrýsting á félögin, tala íslenskan fótbolta og félögin niður um leið.

Það má færa góð rök fyrir því að betra sé fyrir þessa leikmenn að taka út þroska og öðlast reynslu í efstudeild á Íslandi og í framhaldi fanga athygli stærri og betri liða í öflugri deildum sem yrði betra fyrir íslenskan fótbolta og landsliðin til framtíðar.

Efsta deild á Íslandi

Talsverð umræða hefur verið í gangi um stöðu íslenskrar knattspyrnu og þá helst í samanburði við stöðu efstu deildar á lista UEFA, en sá listi er mælikvarði á árangur íslenskra liða í Evrópukeppnum.

Það liggur fyrir að efsta deild á Íslandi hefur fallið hratt niður listann og er nú talin sú fjórða slakasta í Evrópu. Frá árinu 2000 til 2019 hefur íslenska deildin verið að meðaltali í 37. sæti, best 33. sæti og verst 41. sæti. Árið 2021 er Ísland í 52. sæti.

Hér má sjá stöðulista deilda í Evrópu. Ísland í sæti 52.

43. Georgía
44. Finnland
45. Moldovía
46. Malta
47. Færeyjar
48. Kosóvó
49. Gíbraltar
50. Svartfjallaland
51. Wales
52. Ísland
53. Eistland
54. Andorra
55. San Marínó

Efsta deild á Íslandi er flokkuð sem atvinnumannadeild hjá FIFA og UEFA (professional leauge). Þrátt fyrir það vilja sumir forsvarsmenn knattspyrnunnar á Íslandi tala um deildina sem áhugamannadeild og þá um leið tala hana og starf félagana niður.

Það er mikilvægt ef framþróun á að eiga sér stað að félögin og KSÍ haldi því til haga og hagi sinnu vinnu samkvæmt því að efsta deild á Íslandi sé atvinnumannadeild.

Fjölmörg lið eru með erlenda og íslenska leikmenn sem eru atvinnumenn, leikmenn sem þjálfa hjá sínu félagi með fótboltanum, sumir í skóla og einhverjir í hluta- eða fullu starfi. Hugtakið hálfatvinnumennska eða atvinnumennska skiptir ekki öllu máli en hugtakið áhugamennska dregur starfið hinsvegar niður.

Höfum hugrekki, kjark og þor og tölum og hefjum deildina og íslenskan fótbolta upp.

Gleymdum við íslenskum fótbolta í velgengninni?

Það má velta fyrir sér hvort íslenski fótboltinn hafi gleymst í fögnuði og umræðu yfir frábærum árangri landsliða á undanförnum árum.
Það er nauðsynlegt í því samhengi að hefja og tala íslenska knattspyrnu upp á nýjan leik og gera deildina samkeppnishæfari við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.

Það er mat þjálfara að ástæðan fyrir þeirri stöðu sem uppi er í dag sé m.a stutt keppnistímabil, of fáir gæðaleikir (stórir) í samanburði við þessi lönd. Keppnislega hlaupa okkar leikmenn jafn mikið og leikmenn í erlendum liðum en þegar kemur að hraðabreytingum, snerpu og sprettum þurfum við að gera mun betur. Við þessu þarf að bregðast við með því að efla og styrkja efstu deildina, leika fleiri gæðaleiki, stytta undirbúningstímabilið, upphefja íslenska knattspyrnu og ráðast í alvöru markaðsstarf. Þannig myndum við hringrás: Okkar leikmenn verða betri, íslensku knattspyrnuliðin munu ná betri árangri í evrópukeppnum, meira fjármagn kemur til deildarinnar og félagana, glugginn fyrir leikmenn verður stærri og þ.a.l meiri möguleiki á að fara í lið í betri deildum, með því að fara í betri lið hækkar verðmiðinn fyrir þessa leikmenn sem er til góða fyrir liðin og allt þetta mun hjálpa íslensku landsliðunum að ná betri árangri í sínum keppnum.

Byrjum á byrjuninni.

Fótboltakveðja
E.Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals.
Jón Gretar Jónsson, stjórnarmaður knd. Vals.
Athugasemdir
banner
banner
banner