Brynjólfur Andersen Willumsson skoraði sigurmark Groningen í 1-0 sigri á Sittard á sunnudag. Brynjólfur spilaði einungis fimm mínútur í leikjunum þremur fyrir leik sunnudagsins, vegna meiðsla.
Brynjólfur kom inn á þegar 63 mínútur voru liðnar af leiknum og á 87. mínútu skoraði hann sigurmarkið. Hann ræddi við Fótbolta.net.
Brynjólfur kom inn á þegar 63 mínútur voru liðnar af leiknum og á 87. mínútu skoraði hann sigurmarkið. Hann ræddi við Fótbolta.net.
Ennþá betri tilfinning að skora sigurmark
Hvernig var tilfinningin að skora sigurmark í hollensku úrvalsdeildinni?
„Það er alltaf góð tilfinning að skora en þegar það er sigurmark er það ennþá betra, þannig já bara geggjað," segir Binni.
???? Brynjólfur Willumsson (f.2000)
— Áhugaverðar staðreyndir um íslenska knattspyrnu (@OReyndir) March 18, 2025
???????? FC Groningen
???? Fortuna Sittard
???????? #Íslendingavaktin pic.twitter.com/0kBNrnNgkg
Hann var búinn að lýsa sinni upplifun af markinu.
„Boltinn fór út í breiddina og ég sá að það væri að koma fyrirgjöf, ég er að koma í seinni bylgjunni og boltinn dettur í það svæði. Fyrsta snertingin var fullkomin, hún gerði afgreiðsluna mun einfaldari og ég lagði boltann í hornið."
Hvaða skilaboð fékkstu frá þjálfaranum?
„Þetta klassíska fyrir sóknarmann bara; koma inn á og gefa liðinu auka orku, djöflast, vera í teignum og ógna markinu."
Fer ekkert nánar út í þau viðbrögð
Voru einhver skemmtileg eða áhugaverð viðbrögð eftir markið sem má segja frá?
„Það voru sum viðbrögð skemmtileg frá pínulitlum vinum, það er held ég samt best að fara ekkert nánar út í þau."
„Annars bara góð viðbrögð frá öllum þjálfurum, leikmönnum og fjölskyldu; látinn vita að það sé ánægja að ég sé kominn til baka út á völl og hafi náð að skora sigurmarkið."
Var kominn inn í byrjunarliðið fyrir meiðslin og ætlar sér þangað aftur
Hvernig finnst þér tímabilið hafa verið til þessa, ertu sáttur með þitt hlutverk?
„Tímabilið er búið að vera mjög fínt persónulega miðað við spiltíma, en auðvitað hefði ég viljað vera búinn að spila meira. Það byrjaði hægt sem er eðlilegt, ég var að koma inn í lið sem var búið að ganga vel og þeir voru mikið að spila á sömu leikmönnum. Ég var búinn að vinna mér inn byrjunarliðssæti og það gekk vel en ég lenti siðan í meiðslum fyrir mánuði síðan gegn Sparta Rotterdam. Ég var að mæta til baka núna og það er gott að byrja á marki í fyrsta leik eftir meiðslin. Núna er bara einbeiting á að haldast heill og vinna til baka sætið mitt í liðinu og spila sem mest restina af tímabilinu."
Brynjólfur tók hálfleik í æfingaleik gegn Schalke í gær. Viðtalið var tekið fyrir það, en Brynjólfur var spurður hvernig staðan væri á sér eftir leikinn á sunnudag
„Standið er mjög fínt núna og ég er bara æfa á fullu til að koma mér aftur í leikform og finna taktinn aftur, það er alltaf erfitt að vera meiddur og þurfa vera uppi í stúku og horfa á liðið spila mikilvæga leiki og geta ekki hjálpað."
Möguleiki á Evrópusæti
Groningen er í 9. sæti deildarinnar sem stendur, stigi á eftir sæti í umspili fyrir Sambandsdeildina. Er mikið talað um möguleikann að ná Evrópusæti?
„Það er auðvitað eitthvað rætt og það er möguleiki, en þetta er mjög þéttur pakki og getur breyst hratt. Við verðum að einbeita okkur að því að taka bara einn leik í einu. Það er líka spennandi og á sama tíma erfitt prógramm framundan sem er bara veisla."
„Þá er alltaf möguleiki á því að fá kallið"
Hvernig var aðdragandinn fyrir landsliðsverkefnið, varstu að gera þér vonir um að fá kallið frá Arnari?
„Já, maður hefur alltaf trú á því að geta verið valinn, en eftir að ég meiðist var það erfitt. Maður vill alltaf vera partur af hópnum og sérstaklega núna þegar það er nýr þjálfari og spennandi hlutir framundan en það er mikil samkeppni og fullt af góðum leikmönnum. Ég einbeiti mér bara að því að spila vel með mínu liði og þá er alltaf möguleiki á því að fá kallið. Ég var bara búinn að æfa eina heila æfingu í um einn mánuð þegar hópurinn kom út," sagði Binni.
Athugasemdir