Zubimendi til Real frekar en Arsenal? - Bundesliga leikmenn á blaði Man Utd - Alvarez ekki til sölu
   fim 20. mars 2025 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Örugglega einhverjir Liverpool stuðningsmenn sem eru fúlir yfir því hvað liðið þeirra var lélegt"
Icelandair
Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson.
Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Myndir úr leiknum gegn Frakklandi í febrúar.
Myndir úr leiknum gegn Frakklandi í febrúar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ada Hegerberg.
Ada Hegerberg.
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framundan hjá kvennalandsliðinu eru tveir heimaleikir í Þjóðadeildinni gegn Noregi og Sviss. Leikirnir fara fram 4. og 8. apríl og verða spilaðir á Þróttarvelli.

Þorsteinn Halldórsson var spurður út í síðustu leiki, gagnrýni á leik liðsins og komandi leiki á fréttamannafundi í gær.

Með eitt stig eftir tvo leiki
„Svissleikurinn var svolítið varfærnislegur, vorum varnarlega fín á móti Sviss, sóknarlega slepptum við aldrei af okkur beislinu," sagði Steini.

„Frakkaleikurinn var heilt yfir fínn fannst mér, auðvitað fáum við á okkur mörk úr hlutum sem við eigum að geta gert betur í. Auðvitað voru að einhverju leyti erfiðleikar sóknarlega. Við þurfum að halda því áfram að skora úr föstum leikatriðum, það skiptir okkur máli, æfum það mikið og þurfum að vera sterk í því. Við þurfum að geta nýtt það á móti sterkari þjóðunum. Við vorum kannski í basli á köflum, en heilt yfir var franska liðið ekkert að opna okkur mikið og skapa sér dauðafæri. Á móti kemur þurfum við að nýta þá möguleika sem við höfum til að koma okkur í góða sókn og stöður. Það vantaði upp á það á köflum."

„Síðasta hálftímann fannst mér við spila vel, náðum þá að fá kraft við það að vera sækja leikinn; lendum 3-1 undir og kom kraftur við að minnka niður í 3-2. Þær gerðu líka auðvitað vel í að stýra hraðanum, náðu að drepa leikinn niður og við fengum fáar stöður. Mér fannst samt vera stígandi."

„Núna eru næstu tveir leikir og við ætlum að gera allt sem við getum til að vinna þá."

Stundum ganga hlutirnir ekki upp
Eftir leikinn gegn Frökkum var sóknarleikur íslenska liðsins gagnrýndur á RÚV; basl í uppspili og hugmyndasnauður sóknarleikur.
Steini var spurður hvort hann hefði áhyggjur af þessu tvennu.

„Auðvitað erum við alltaf að reyna að bæta okkur í öllum hlutum sem við erum að gera í fótbolta, stundum eru leikir svona að þér gengur ekki vel í einhverjum þáttum leiksins og þannig er það bara. Ég hef svo sem ekki lesið neitt um það sem var fjallað um, veit ekki hvað það var og skiptir mig í sjálfu sér engu máli. En það er bara partur af fótbolta, stundum ganga hlutirnir upp, stundum ekki."

„Það eru örugglega einhverjir Liverpool stuðningsmenn hérna sem eru fúlir yfir því hvað liðið þeirra var lélegt um síðustu helgi, en það getur bara gerst í fótbolta og þannig er þetta bara. Það breytist ekkert, við erum ekkert öðruvísi en allir aðrir, þó að við höfum kannski ekki spilað okkar besta leik sóknarlega, þá er það bara eitthvað sem við þurfum að halda áfram að vinna með. Við erum alltaf að vinna í að bæta hluti hjá okkur, sama hvað það er. Við höfum trú á því að við getum orðið betri og það er alltaf markmiðið okkar með hverjum einasta landsleik; að reyna verða betri en síðast. Og það verður klárlega núna."


Markmiðið að enda í öðru af tveimur efstu sætunum
Hversu mikilvægt er að fá sex stig út úr leikjunum tveimur?

„Auðvitað væri frábært að fá sex stig, það kæmi okkur í góða stöðu. Markmiðin hafa ekkert breyst, við stefnum á annað af tveimur efstu sætunum í riðlinum. Við þurfum að mæta í Noregsleikinn fyrst, gera vel þar og það er það sem við ætlum okkur. Svo kemur í ljós hvernig það endar, en markmiðið er að vinna," sagði Steini.

Mjög mismunandi andstæðingar
„Vonandi lærum við eitthvað af fyrri leiknum gegn Sviss, en fyrst og fremst er einbeitingin á Noreg. Svo snúum við þessu í Sviss. Norska liðið er mjög gott, frábærir leikmenn inn á milli, leikmaður í liðinu sem hefur örugglega verið kosin best í Evrópu (Ada Hegerberg) og svo Graham Hansen sem hefur verið frábær með Barcelona, búin að vera gríðarlega sterk þar. Sóknarlega er norska liðið mjög sterkt, margir mjög góðir sóknarmenn í norska hópnum. Norska liðið er virkilega vel mannað lið og við þurfum að eiga góðan leik til að eiga möguleika á að vinna þær, og það er það sem við ætlum okkur. Síðan fer fókusinn á Sviss."

„Þær eru mun varnarsinnaðri en Noregur, allt öðruvísi lið. Þær eru með fimm manna varnarlínu, þrjár flatar inn á miðjunni og eru með góða leikmenn inn á milli. Þær spila mjög agaðan og skipulagðan varnarleik og gefa ekki mörg færi á sér. Það sást í leiknum á móti okkur, sækja ekki á mörgum mönnum, reyna hraðar sóknir; treysta á að þétta raðirnar og skora úr skyndisóknum."


Hlín og Emilía kostir í fremstu stöðu
Sveindís Jane Jónsdóttir er augljósi kosturinn sem leikmaðurinn í fremstu stöðu íslenska liðsins. Bryndís Arna Níelsdóttir er ekki í hópnum fyrir komandi leiki. Er áhyggjuefni að næsti kostur sé ekki jafn augljós?

„Hlín spilar sem senter hjá Leicester og Emilía spilar stundum sem senter hjá Leipzig, hún er alveg möguleiki líka. Það sést með valinu núna, Bryndís er ekki, og þessar tvær sem ég nefni sé ég sem kosti í fremstu stöðu. Við erum ekkert illa stödd, bæði Hlín og Emilía hafa verið að skora; Hlín náttúrulega skoraði í haust (á síðasta tímabili með Kristianstad) en Emilía hefur verið að skora reglulega núna. Þó að Emilía spilar ekkert alltaf senter hjá Leipzig, þá hefur hún líka spilað þar. Við erum ekkert í neinum vanrdæðum og ég lít ekki á það þannig. Ég lít á að liðið sé vel mannað og við séum í góðum málum."

Hver leikur er alltaf einstakur
Ísland er í riðli með Noregi og Sviss á EM í sumar. Er gott eða slæmt að vera mæta þeim þjóðum svona stuttu fyrir mót?

„Í grunninn skiptir það engu máli. Þetta er fyrirkomulagið, A-deild Þjóðadeildar er sami styrkleikaflokkur og lokakeppni EM. Það eru þessar þjóðir sem mætast og það eru fleiri þjóðir en við í Þjóðadeildinni sem eru að mætast núna og aftur á EM. Þetta er eitthvað sem mun gerast aftur í framtíðinni ef þetta er fyrirkomulagið. Ég tel þetta ekki vera neit slæmt eða svoleiðis, munurinn á þessu og EM er að við spilum heima og úti í Þjóðadeildinni. Þó að leikurinn á EM verði þriðji leikurinn á stuttum tíma, þá er hver leikur alltaf einstakur, hefur sitt upphaf og endi," sagði Steini.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner