Dyche að taka við Forest - Chelsea vill Aghehowa - Njósnarar Barcelona sáu Greenwood fara á kostum
   mán 20. október 2025 12:06
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Dóri fær sparkið og Ólafur Ingi tekur við
Halldór Árnason
Halldór Árnason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Ingi.
Ólafur Ingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net hefur fengið fjölda ábendinga í dag á þá leið að Halldór Árnason verði látinn fara sem þjálfari Breiðabliks.

Uppfært 12:05: Eftir að fréttin var birt hafa sögurnar einungis orðið háværari. Búið sé að taka ákvörðun um að Halldór verði látinn fara og það sé ljóst að Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari U21 landsliðsins, verði næsti þjálfari Breiðabliks. Beðið er eftir tilkynningu frá Breiðabliki.

Árangur Breiðabliks síðustu mánuði hefur alls ekki verið nægilega góður, einn sigur síðustu þrjá mánuði í Bestu deildinni en liðið komst vissulega í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar; Blikar gerðu vel að slá út albanska liðið Egnatia en eftir það hefur verið nánast ekkert um fína drætti.

Formaður fótboltadeildar Breiðabliks, Flosi Eiríksson, ræddi við Fótbolta.net í dag og svör hans um framtíð Halldórs voru ekki sannfærandi.

Í kjölfar viðtalsins hafa borist ábendingar á þá leið að Halldór verði látinn fara í dag og að Ólafur Ingi verði næsti þjálfari Breiðabliks.

Breiðablik situr í 4. sæti í Bestu deildinni og þarf að treysta á að Fram taki stig af Stjörnunni í kvöld til að eiga möguleika á Evrópusæti á næsta tímabili.

Næsti leikur Breiðabliks er heimaleikur gegn finnska liðinu KuPS í Sambandsdeildinni á Kópavogsvelli á fimmtudag.

Halldór gerði Breiðablik að Íslandsmeisturum í fyrra, hann var á þá á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari. Samningur hans við félagið var svo framlengdur í ágúst og var sú ákvörðun ansi umdeild því liðið var ekki að ná í góð úrslit á þeim tímapunkti.

Ekki hefur náðst í Eystein Pétur Lárusson, framkvæmdastjóra KSÍ, við vinnslu fréttarinnar og því ekki fengist staðfesting á því að Breiðablik hafi óskað eftir því að fá að ræða við Ólaf Inga.
Athugasemdir