Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 21. júlí 2022 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ákvörðunin kom Heimi ekki á óvart - „Stoltur af mínum tíma hjá Val"
Þetta endaði ekki eins og ég vildi
Þetta endaði ekki eins og ég vildi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og ég hef sagt áður er eitt að búa til velgengni en annað að viðhalda henni
Eins og ég hef sagt áður er eitt að búa til velgengni en annað að viðhalda henni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur varð Íslandsmeistari árið 2020.
Valur varð Íslandsmeistari árið 2020.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjálfarabreyting var gerð hjá Val á mánudag. Heimir Guðjónsson var látinn fara og í hans stað var fenginn Ólafur Jóhannesson sem mun stýra liðinu út yfirstandandi tímabil.

Heimir tók við Val eftir tímabilið 2019, en þá um haustið hafði einmitt Ólafur Jóhannesson verið látinn fara sem þjálfari liðsins. Heimir gerði Val að Íslandsmeisturum árið 2020 og var með liðið í toppsæti deildarinnar í fyrra þegar fimm umferðir voru eftir af mótinu. Allt fór í baklás og Valur náði einungis í þrjú stig í síðustu fimm umferðunum og endaði í 5. sæti deildarinnar.

Valur er nú í 5. sæti deildarinnar, fjórtán stigum á eftir toppliði Breiðabliks þegar þrettán umferðir eru liðnar af mótinu. Valur hefur tapað tveimur leikjum í röð, síðast gegn ÍBV á sunnudag.

„Nei, í sjálfu sér kom þetta mér ekki á óvart og ég skil alveg þessa niðurstöðu. Börkur bara talaði við mig á mánudagsmorguninn og tilkynnti mér þessa ákvörðun. Það kom ekkert á óvart, liðið er í 5. sæti og væntingarnar voru þær að það væru komin fleiri stig í pottinn á þessum tímapunkti. Þetta endaði ekki eins og ég vildi en öll samskipti við Börk voru til fyrirmyndar, ég get ekki kvartað neitt yfir því," sagði Heimir í samtali við Fótbolta.net. Börkur Edvardsson er formaður knattspyrnudeildar Vals.

„Þegar ég kem í Val, haustið 2019, hafði gengið ekki verið nógu gott tímabilið á undan (29 stig og 6. sæti). Ég tók við og við spiluðum geggjaðan fótbolta, unnum mótið sanngjarnt, skoruðum 50 mörk í átján leikjum. Eins og ég hef sagt áður er eitt að búa til velgengni en annað að viðhalda henni. Árið eftir náðum við ekki að fylgja þessu eftir og gerðum miklar breytingar á leikmannahópnum eftir síðasta tímabil. Það auðvitað tekur alltaf einhvern tíma að búa til nýtt lið en tíminn er ekki vinur þinn í fótbolta."

Ekki rétti maðurinn til að svara því
Leið þér í vetur eins og þessar breytingar á leikmannahópnum væru að virka?

„Veturinn var kaflaskiptur, við byrjuðum mótið vel, vorum með þrettán stig af fimmtán mögulegum í byrjun. Svo kemur slæmur kafli, þar sem var töluvert um meiðsli og annað. Við náðum að vinna okkur út úr því en svo kom aftur slæmur kafli núna."

Í landsliðsglugganum í júní voru háværar sögusagnir um að Valur ætlaði sér að fá inn nýjan þjálfara.

„Ég er ekki rétti maðurinn til að svara þessu en ég held að það hafi verið fullt traust á mig þá og við komum til baka. Við spiluðum vel á móti Breiðabliki og Leikni."

Heimir kom svo inn á að liðið „hefði svolítið verið að vinna með rauðu spjöldin í sumar". Í síðustu sjö leikjum fékk liðið þrjú rauð spjöld. Í þeim þremur leikjum þar sem leikmaður liðsins sá rautt fékk liðið einungis eitt stig.

Á einn af fjórum
Hvað tekur við hjá þér?

„Maður lítur alltaf inn á við, fyrst tekur maður sér smá frí og svo lítur maður inn á við og sér hvort það sé ekki hægt að gera betur. Að sjálfsögðu held ég áfram og er stoltur af mínum tíma hjá Val. Síðan 1987 hefur Valur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari. Ég á einn titil þar. Það hefur verið gríðarlega gaman að vinna hjá Val, fullt af flottu fólki og ég hef fengið að þjálfa geggjaða fótboltamenn. Maður verður alltaf að líta jákvæður á þetta allt saman og svo sér maður hvað framtíðin ber í skauti sér."

Óli Jó tekur við starfinu. Hefuru einhverja skoðun á því?

„Nei, ég hef enga skoðun á því. Ég vona bara að Valsliðinu gangi vel," sagði Heimir að lokum.

Heimir er 53 ára gamall og hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari sem aðalþjálfari. Þá varð hann færeyskur meistari árið 2018 þegar hann þjálfaði HB.
Athugasemdir
banner
banner
banner