Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   mið 21. ágúst 2024 21:30
Brynjar Ingi Erluson
2. deild: KFA skoraði sjö mörk í seinni hálfleik - Selfoss færist nær Lengjudeildinni
KFA vann stórsigur í nágrannaslag
KFA vann stórsigur í nágrannaslag
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Selfyssingar nálgast Lengjudeildina
Selfyssingar nálgast Lengjudeildina
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Jakob Gunnar er kominn með 19 mörk með Völsungi
Jakob Gunnar er kominn með 19 mörk með Völsungi
Mynd: 640.is - Hafþór Hreiðarsson
Gary Martin skoraði tvö fyrir Ólafsvíkinga
Gary Martin skoraði tvö fyrir Ólafsvíkinga
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
KFA bauð upp á flugeldasýningu er liðið kjöldró Hött/Hugin, 8-2, í Austurlandsslag í Fjarðabyggðarhöllinni í 2. deild karla í kvöld. Heimamenn í KFA skoruðu sjö mörk í síðari hálfleiknum gegn tíu mönnum Hattar/Hugins. Selfoss er þá skrefi nær því að spila í Lengjudeildinni eftir að hafa unnið KF, 3-2, á JÁVERK-vellinum.

Eftirvæntingin var mikil eftir leik KFA og Hattar/Hugins enda nágrannar að mætast. Höllin var troðfull og mikil stemning, en það voru heimamenn sem komust yfir eftir sjálfsmark.

Eiður Orri Ragnarsson átti fasta fyrirgjöf sem Ívar Arnbro Þórhallsson, markvörður H/H, varði í Genis Caballe og í eigið net.

Gestirnir vöknuðu við þetta og jöfnuðu metin þrettán mínútum síðar er Bjarki Fannar Helgason keyrði inn í teiginn vinstra megin og hlóð svo í fast skot sem sigraði Þórð Ingason og hafnaði í markinu.

Áfram héldu gestirnir að pressa og uppskáru þeir annað mark er Martim Cardoso skoraði með skoti fyrir utan teig, í stöng og inn, aðeins nokkrum mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks.

Þegar búið var að flauta til hálfleiks fékk Brynjar Þorri Magnússon, leikmaður H/H, að líta rauða spjaldið fyrir að ýta leikmanni KFA sem féll í gervigrasið. Heimskuleg ákvörðun sem átti eftir að kosta gestina.

Eiður Orri jafnaði metin strax í upphafi síðari hálfleiks með skalla á nærstönginni og gerði hann þá annað mark sitt úr aukaspyrnu níu mínútum síðar. Jaques Sandeu gerði fjórða mark KFA örfáum mínútum eftir aukaspyrnumark Eiðs og staðan orðin 4-2.

KFA bætti við þremur mörkum á fjögurra mínútna kafla. Matheus Gotler skoraði fyrst með skoti fyrir utan teig og síðan slapp hann í gegn tveimur mínútum síðar og gerði þá annað mark sitt. Jacques gerði sjöunda mark KFA er Ívar missti boltann til hans og þaðan hafnaði boltinn í netinu.

Heiðar Snær Ragnarsson fullkomnaði niðurlægingu H/H með laglegu skoti upp í þaknetið þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Magnaður síðari hálfleikur hjá KFA en algert hrun hjá gestunum.

Lokatölur 8-2 og er KFA í 5. sæti með 31 stig en Höttur/Huginn í 6. sæti með 27 stig.

Selfyssingar nálgast Lengjudeildina

Selfoss vann 3-2 baráttusigur á KF á JÁVERK-vellinum á Selfossi.

Spánverjarnir í Selfossi bjuggu til fyrsta mark heimamanna. Gonzalo Zamorano lagði boltann út á Nacho Gil sem skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Heimamenn voru með öll tök á leiknum og alltaf líklegir til að bæta við. Annað markið kom fyrir rest en það var Alfredo Sanabria sem skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf Arons Fannars Birgissonar.

Aron Fannar gerði þriðja markið á 56. mínútu. Nacho Gil kom boltanum á Aron, sem fékk gott rými til þess að athafna sig þar sem varnarmaðurinn bakkaði frá og nýtti hann svæðið með því að skora.

Selfyssingar fóru að slaka á eftir þriðja markið og hleypti það meiri spennu í leikinn. Vitor Thomas minnkaði muninn á 85. mínútu eftir aukaspyrnu. Marinó Snær kom boltanum inn í teiginn og á Agnar Óla Grétarsson sem flikkaði honum á Vitor og þaðan í netið.

Tveimur mínútum síðar fengu gestirnir vítaspyrnu er Dagur Jósefsson braut á Grétari Áka Bergssyni. Þorsteinn Már Þorvaldsson skoraði úr spyrnunni.

KF gerði allt til að fullkomna endurkomu sína en það kom aldrei og lokatölur því 3-2. Selfyssingar geta andað léttar. Liðið er á toppnum með 41 stig, níu stigum á undan Víkingi Ó. sem er í 3. sætinu. KF er í næst neðsta sæti með 15 stig.

Gary Martin skoraði tvö í sigri Ólafsvíkinga

Gary Martin skoraði tvö mörk er Víkingur Ó. vann 3-2 sigur á Haukum.

Englendingurinn skoraði strax á 2. mínútu en Guðmundur Axel Hilmarsson jafnaði rúmum tuttugu mínútum síðar. Guðjón Pétur Lýðsson kom Haukum yfir snemma í síðari hálfleiknum með marki úr vítaspyrnu en Gary var fljótur að svara með jöfnunarmarki.

Sjö mínútum fyrir leikslok gerði Luis Ocerin sigurmark Ólafsvíkinga og mikilvægt var það. Víkingur er áfram í baráttu um að komast upp um deild en liðið er með 32 stig í 4. sæti.

Völsungur er í 2. sæti eftir að hafa unnið 2-1 sigur á KFG.

Hinn 17 ára gamli Jakob Gunnar Sigurðsson skoraði bæði mörk Völsungs og er hann nú kominn með 19 mörk í deildinni í sumar. Hann gengur formlega í raðir KR eftir tímabilið.

Völsungur er með 35 stig í öðru sæti en KFG í 10. sæti með 17 stig.

Bjarki Rúnar Jónínuson gerði sigurmark Ægis í 1-0 sigrinum á Kormáki/Hvöt. Markið kom um stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Þróttur V. vann þá 4-1 endurkomusigur á Reyni Sandgerði, en Sandgerðingar voru 1-0 yfir þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Staðan hélst þannig alveg fram að 73. mínútu, en þá jöfnuðu heimamenn og skoruðu síðan þrjú til viðbótar. Lokatölur 4-1 og Þróttarar nú komnir upp í 3. sætið með 32 stig þegar fjórar umferðir eru eftir.

Úrslit og markaskorarar:

KFA 8 - 2 Höttur/Huginn
1-0 Genis Arrastraria Caballe ('13 , sjálfsmark)
1-1 Bjarki Fannar Helgason ('26 )
1-2 Martim Fortuna Soares Sequeira Cardoso ('40 )
2-2 Eiður Orri Ragnarsson ('47 )
3-2 Eiður Orri Ragnarsson ('56 )
4-2 Jacques Fokam Sandeu ('58 )
5-2 Matheus Bettio Gotler ('65 )
6-2 Matheus Bettio Gotler ('67 )
7-2 Jacques Fokam Sandeu ('69 )
8-2 Heiðar Snær Ragnarsson ('73 )
Rautt spjald: Brynjar Þorri Magnússon, Höttur/Huginn ('45) Lestu um leikinn

Selfoss 3 - 2 KF
1-0 Ignacio Gil Echevarria ('16 )
2-0 Alfredo Ivan Arguello Sanabria ('33 )
3-0 Aron Fannar Birgisson ('56 )
3-1 Vitor Vieira Thomas ('85 )
3-2 Þorsteinn Már Þorvaldsson ('87 , víti)
Lestu um leikinn

Víkingur Ó. 3 - 2 Haukar
1-0 Gary John Martin ('2 )
1-1 Guðmundur Axel Hilmarsson ('25 )
1-2 Guðjón Pétur Lýðsson ('48 , Mark úr víti)
2-2 Gary John Martin ('53 )
3-2 Luis Alberto Diez Ocerin ('83 )

Þróttur V. 4 - 1 Reynir S.
0-1 Alberto Sánchez Montilla ('23 )
1-1 Ásgeir Marteinsson ('73 )
2-1 Jóhann Þór Arnarsson ('85 )
3-1 Hreinn Ingi Örnólfsson ('91 )
4-1 Guðni Sigþórsson ('91 )

Kormákur/Hvöt 0 - 1 Ægir
0-1 Bjarki Rúnar Jónínuson ('76 )

Völsungur 2 - 1 KFG
1-0 Jakob Gunnar Sigurðsson ('2 )
1-1 Eyjólfur Andri Arason ('6 )
2-1 Jakob Gunnar Sigurðsson ('10 )
2. deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Selfoss 21 16 2 3 49 - 25 +24 50
2.    Völsungur 21 12 4 5 42 - 26 +16 40
3.    Þróttur V. 21 12 3 6 55 - 33 +22 39
4.    Víkingur Ó. 21 11 6 4 47 - 29 +18 39
5.    KFA 21 11 2 8 49 - 38 +11 35
6.    Haukar 21 9 3 9 40 - 39 +1 30
7.    Höttur/Huginn 21 8 3 10 38 - 48 -10 27
8.    Ægir 21 6 6 9 27 - 33 -6 24
9.    KFG 21 5 5 11 36 - 42 -6 20
10.    Kormákur/Hvöt 21 5 4 12 18 - 39 -21 19
11.    KF 21 5 3 13 24 - 47 -23 18
12.    Reynir S. 21 4 3 14 27 - 53 -26 15
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner