Knattspyrnudeild Fram tilkynnti í dag að brasilíski leikmaðurinn Fred hefur framlengt samning sinn við félagið til næstu tveggja ára.
Fred er 24 ára gamall og er að spila sitt þriðja tímabil með Fram en samningur hans átti að renna út 16. október næstkomandi og sýndu að minnsta kosti fjögur lið úr Pepsi Max-deildinni áhuga á að fá hann.
Hann hefur verið potturinn og pannan í sóknarleik Framara og gert níu mörk í nítján leikjum í deild- og bikar á þessari leiktíð. Hann var þá valinn besti leikmaður Framara á síðustu leiktíð er hann gerði 10 mörk í 23 leikjum.
Fred gerði í dag nýjan tveggja ára samning við félagið og er því samningsbundinn til 2022.
Þetta eru afar góðar fréttir fyrir Framara sem eru í baráttu um að komast upp í Pepsi Max-deildina en liðið er með 33 stig í þriðja sæti þegar fimm leikir eru eftir og þá á liðið leik til góða á Leikni R. sem er í 2. sæti.
Athugasemdir