Heimild: Akureyri.net
Það kom nokkuð óvenjulegt mál upp í yngriflokkakeppni karla þar sem KA og Stjarnan eiga úrslitaleik í 4. flokki C-liða.
Þar þurfa 12 og 13 ára drengir að endurspila framlengingu í úrslitaleiknum vegna slæmra dómaramistaka þegar liðin áttust við á Akureyri 14. september.
Úrslitaleiknum lyktaði með jafntefli og framlengingunni sömuleiðis svo gripið var til vítaspyrnukeppni, sem KA sigraði. Stjörnumenn voru þó ósáttir og kærðu úrslitin til KSÍ.
Stjarnan kærði úrslitin vegna þess að framlengingin var aðeins í 10 mínútur í stað þeirra 20 sem reglugerðin segir til um og þá voru aðeins teknar 3 vítaspyrnur á lið í staðinn fyrir 5.
Stjarnan krafðist þess að úrslit leiksins yrðu dæmd ógild og að framlengingin yrði spiluð aftur á heimavelli Stjörnunnar í Garðabæ. Til vara gerði Stjarnan sömu kröfu nema að leikið yrði á heimavelli KA, en að KA skuli greiða ferðakostnað Stjörnunnar fram og til baka.
KSÍ féllst á varakröfu Stjörnunnar um að framlengingin yrði endurspiluð á Akureyri en KA þarf að greiða ferðakostnaðinn. Þetta virðast Akureyringar ekki vera sáttir með og er meðal annars bent á að mistök dómara hafi haft sömu áhrif á bæði lið. Þar að auki voru bæði þjálfarateymin upplýst um ákvörðun dómara um að spila 10 mínútna framlengingu.
„Að mati aga- og úrskurðarnefndar eru ákvæði knattspyrnulaganna og reglugerðar ófrávíkjanleg og því ljóst að dómarinn gerði mistök varðand leiktímann. Engu breytir hvort mistök dómara hafi haft áhrif á báða aðila eða hafi verið framkvæmd með vitund beggja liða," segir meðal annars í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar.
Athugasemdir