Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 22. janúar 2025 14:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Jón Þór: Þið sem fjallið um deildina hittuð ekki á rétt þar
Jón Þór er ánægður með hvernig undirbúningstímabilið hefur farið af stað.
Jón Þór er ánægður með hvernig undirbúningstímabilið hefur farið af stað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Már er að koma til baka eftir aðgerð sem hann fór í á síðasta ári.
Rúnar Már er að koma til baka eftir aðgerð sem hann fór í á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marko Vardic er að koma til baka eftir meiðsli sem hafa hrjáð hann síðustu mánuði.
Marko Vardic er að koma til baka eftir meiðsli sem hafa hrjáð hann síðustu mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ómar Björn samdi við ÍA í haust.
Ómar Björn samdi við ÍA í haust.
Mynd: ÍA
Jón Breki í leik með U17 í haust.
Jón Breki í leik með U17 í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta undirbúningstímabil fer bara gríðarlega vel af stað, það hefur gengið mjög vel, strákarnir hafa æft af miklum krafti og það er mikil orka í hópnum. Við höfum spilað fína leiki þannig það er allt á áætlun," segir Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, þegar hann er spurður út í undirbúningstímabilið sem nú er í fullum gangi hjá íslenskum liðum.

Þjálfarinn segir að allir leikmenn nema Marko Vardic og Rúnar Már Sigurjónsson séu heilir. Þeir eru báðir að jafna sig á meiðslum og segir Jón Þór að þeir séu báðir á góðum batavegi.

Mögulega að leitast eftir 1-2 leikmönnum
ÍA hefur einungis sótt einn nýjan leikmann frá því að síðasta tímabili lauk. Sóknarmaðurinn Ómar Björn Stefánsson gekk í raðir félagsins frá Fylki. Ertu sáttur við hópinn eða viltu gera eitthvað meira á markaðnum?

„Ég er gríðarlega ánægður með hópinn sem við höfum, við munum tefla fram sterku liði í sumar. Við gerðum smávægilegar breytingar á hópnum; lánuðum sterka leikmenn, þrjá í Grindavík og Arnleif í Njarðvík. Það eru strákar sem þurftu stærra hlutverk til að eflast og þróast, þeir fá þar stærra hlutverk en við gátum boðið þeim. Það eru yngri leikmenn sem koma inn í hópinn í þeirra stað, það eru efnilegir strákar sem við bindum miklar vonir við."

„Við erum svo að leitast eftir því að styrkja hópinn um mögulega 1-2 leikmenn. En ef mótið myndi byrja á morgun þá yrði ég fullkomlega sáttur við það. Ég tel að við séum tilbúnir með okkar hóp, en ef eitthvað spennandi kemur upp þá skoðum við það alveg klárlega. Það er alveg ljóst að þeir leikmenn þurfa að vera gríðarlega sterkir því við erum bara með það gott lið. Það yrði að vera rétta púslið. Við erum ekkert að flýta okkur, ekkert stress á okkur."


Ekki rétt en þó ekki algjörlega rangt
Umtalið um ÍA hefur verið á þá leið að þessir 1-2 leikmenn yrðu þá miðjumaður og miðvörður. Er það eitthvað sem hljómar kunnuglega í þín eyru?

„Það hefur verið umræðan já, en það er ekki þar með sagt að hún sé rétt. Hún er röng, þið sem fjallið um deildina hittuð ekki á rétt þar. Við erum búnir að sækja framherja og vorum svo sem að skoða einn mann í hverja línu, þannig þetta er ekki algjörlega rangt hjá ykkur, en þó ekki rétt samt," segir Jón Þór á léttu nótunum.

Vill styrkja hópinn en púslið þarf að vera rétt
Hvar sérð þú liðið þurfa að styrkjast?

„Við mættum alveg stækka hópinn og auka breiddina í hópnum. Ég tel okkur vera með feikilega sterkt lið, en við erum háðir því að bæði Rúnar Már og Marko nái heilsu; að þeirra endurhæfing gangi áfram vel og þeir verði klárir inn í tímabilið. Þetta snýst kannski meira um stærð hópsins heldur en nákvæmlega að styrkja liðið. Sá leikmaður sem kemur inn í þennan hóp þarf að vera gríðarlega öflugur og með gott hugarfar. Við erum ekki að leita að hverju sem er. Við erum í nokkuð afmarkaðri leit og höfum lagt mikla vinnu á síðustu 2-3 árum í að efla bæði liðsheild og samheldnina í hópnum. Það hefur gengið gríðarlega vel og er algjört lykilatriði að mínu mati. Við flýtum okkur hægt í þessum efnum."

Eftir að tímabilinu lauk greindi ÍA frá því að þeir Erik Tobias Sandberg og VIktor Jónsson, tveir af lykilmönnum liðsins, hefðu framlengt samninga sina. Það ríkti smá óvissa um framtíð Sandberg sem er miðvörður en félagið hafði verið orðað við bæði Orra Svein Segatta og Axel Óskar Andrésson sem eru sömuleiðis miðverðir.
Vekur athygli þegar leikmenn ÍA gera vel
Jón Breki Guðmundsson, unglingalandsliðsmaður sem ÍA krækti í frá KFA á síðasta ári, fór á dögunum til ítalska félagsins Empoli. Hann er þar á láni en Empoli er með forkaupsrétt. Á Jón Þór von á því að fleiri Skagamenn haldi erlendis í vetur?

„Ekki eins og staðan er akkúrat núna, en auðvitað erum við með fullt af ungum og efnilegum leikmönnum innan okkar raða. Það hefur verið áhugi á okkar leikmönnum og það vekur athygli þegar leikmenn ÍA gera vel, í sögulegu samhengi þá höfum við verið með gríðarlegan fjölda leikmanna sem hafa farið út í atvinnumennsku og það eru margir í Evrópu sem fylgjast vel með gangi mála hjá ÍA. En akkúrat eins og staðan er núna þá er ekkert í gangi hvað það varðar að einhverjir séu á leiðinni út."

Allt öðruvísi en fyrir síðasta tímabil
Framundan hjá ÍA eru fleiri æfingaleikir, Lengjubikarinn og æfingaferð. Skagamenn munu fara í æfingaferð til Tenerife annað árið í röð.

„Þetta er stutt og snarpt undirbúningstímabil, allt öðruvísi heldur en í fyrra þar sem við vorum auðvitað koma úr Lengjudeildinni og byrjuðum okkar undirbúningstímabil fyrr. Miðað við það er þetta stutt og snarpt, en gríðarlega skemmtilegt. Núna er að koma síðasta strúktúrnum á liðið og hópinn," segir Jón Þór.
Athugasemdir
banner
banner