sun 22. mars 2020 12:30
Ívan Guðjón Baldursson
Vertonghen vill sekta fólk sem fer ekki eftir leiðbeiningum
Mynd: Getty Images
Jan Vertonghen, belgískur varnarmaður Tottenham, er ekki ánægður með viðbrögð sumra í miðjum heimsfaraldri. Fólk hefur brugðist mismunandi við kórónaveirunni og eru enn margir sem virða leiðbeiningar yfirvalda að vettugi þrátt fyrir smithættu.

Útgöngubann hefur verið sett í mörgum löndum í Evrópu og ríkir samkomubann nánast alls staðar.

Heilbrigðiskerfin í Evrópu eiga í miklum erfiðleikum með að halda í við fjölda sýktra og hafa knattspyrnumenn keppst við að leggja yfirvöldum lið með tækjakaupum og peningastyrkjum.

Vertonghen er með hugmynd til að veita heilbrigðisstarfsfólki lið á þessum erfiðu tímum. Fólk sem fer ekki eftir leiðbeiningum ætti að vera sektað og peningurinn settur í heilbrigðiskerfið.

„Það ætti að setja háar sektir á alla þá sem virða ekki reglurnar og peningurinn ætti allur að renna til lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra lykilstarfsmanna heilbrigðiskerfisins," skrifaði Vertonghen á Twitter.

Á Ítalíu er til dæmis útgöngubann þar sem fólk er sektað fyrir að fara út án sérstaks leyfis eða gildrar ástæðu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner