Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 22. mars 2023 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Virðist sjá fyrir endann á erfiðum viðræðum KR við Bologna
Benoný Breki er að ganga í raðir KR.
Benoný Breki er að ganga í raðir KR.
Mynd: Bologna
Í lok janúar var fyrst fjallað um það hér á Fótbolti.net að Benoný Breki Andrésson væri að ganga í raðir KR frá ítalska félaginu Bologna. Benoný er sautján ára sóknarmaður sem uppalinn er hjá Breiðabliki en fór til Ítalíu haustið 2021.

Hann er unglingalandsliðsmaður, lék fimm leiki með U17 árið 2021.

Tveimur vikum síðar var Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, til viðtals í útvarpsþættinum Fótbolti.net og sagði frá því að illa gengi að ná sambandi við Ítalina. Þá var KR einnig að reyna fá Jakob Franz Pálsson frá Venezia og gengu þau skipti í gegn skömmu síðar.

Síðan hefur ekkert heyrst af þróun á máli Benonýs og er að detta í tvo mánuði frá því að fyrst var fjallað um áhuga KR-inga. Hann er með samning við Bologna fram í ágúst 2024 sem hann vill losna undan en Bologna hefur ekki viljað leysa hann undan samningi.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur KR lagt fram tilboð í fleirtölu en illa hefur gengið að fá svör frá ítalska félaginu. Eitt gagntilboðið hljóðaði upp á 60 þúsund evrur (rúmlega 9 milljónir króna) en KR var ekki tilbúið að fara svo hátt.

Núna sé málið þó að leysast og vonir standa til að félagaskiptin verði klár fyrir aðra helgi. Benoný hefur æft með KR og verður með gegn FH í æfingaleik.
Athugasemdir
banner
banner