Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 22. apríl 2021 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Florentino Perez: Það var eins og við hefðum drepið einhvern
Florentino Perez
Florentino Perez
Mynd: EPA
Leeds mótmælu fyrir leikinn gegn Liverpool
Leeds mótmælu fyrir leikinn gegn Liverpool
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Perez heldur því fram að stuðningsmönnum Chelsea hafi verið komið fyrir utan Stamford Bridge af ákveðnum aðila
Perez heldur því fram að stuðningsmönnum Chelsea hafi verið komið fyrir utan Stamford Bridge af ákveðnum aðila
Mynd: EPA
Florentino Perez, forseti Real Madrid á Spáni, er í löngu viðtali við í útvarpsþættinum El Larguero á útvarpsstöðinni Cadena SER en hann fer um víðan völl um Ofurdeildina og vonbrigði hans með UEFA og FIFA.

Perez er stjórnarformaður Ofurdeildarinnar og átti stærstan þátt í að koma henni á laggirnar.

Staðan er núna þannig að öll ensku liðin hafa hætt við þátttöku í henni eftir miklar óeirðir í knattspyrnuheiminum. UEFA og FIFA settu mikla pressu á félögin. Inter hætt við en Milan hefur ekki tilkynnt opinberlega að það sé hætt við verkefnið. Atlético, Barcelona og Real Madrid eru þá enn inni.

Ofurdeildin er í biðstöðu núna samkvæmt Perez og hefur hann greint frá því að liðin skrifuðu undir samning og gæti það reynst þeim dýrkeypt að draga sig úr keppninni.

„Ég er mjög leiður og vonsvikinn því við höfum unnið að þessu verkefni í þrjú ár og kannski náðum við ekki að útskýra það nógu vel hvernig það virkar," sagði Perez.

„Fyrirkomulagið á Meistaradeildinni er úrelt og keppnin verður bara áhugaverð þegar 8-liða úrslitin hefjast. Fyrirkomulagið virkar ekki og við töldum okkur hafa fyrirkomulag þar sem mikilvægustu liðin í Evrópu gætu spilað við hvort annað frá byrjun tímabilsins."

„Við vorum búnir að vinna í fjárhagnum og okkur fannst við geta þénað miklu meiri pening og það er gott fyrir öll hin félögin í leiðinni."


Hann segir að aðeins eitt enskt félag hafi verið tregt í viðræðunum.

„Það var eitt félag frá Englandi sem hafði ekki mikinn áhuga á að vera með en ég mun ekki nefna það félag. Það hafði áhrif á hin félögin. Eigendurnir hjá þessum félögum koma flestir frá Bandaríkjunum, kannski frá NFL-deildinni eða NBA. Þau eru að yfirgefa deildina útaf andrúmsloftinu. FIFA bjó til einhvern svakalegan storm eins og við hefðum hleypt af kjarnorkusprengju."

„Við útskýrðum þetta kannski ekki nógu vel en við fengum líka ekki tækifæri til þess. Sumt fólk vill það ekki. Ég hef aldrei séð svona mikla árásargirni frá forseta UEFA og frá knattspyrnusamböndum í Evrópu áður."

„Ég hef verið í fótboltanum í 20 ár og hef aldrei séð hótanir eins og þessar. Það var eins og við hefðum drepið einhvern. Það var eins og við hefðum drepið fótboltann en við vorum að vinna í því að reyna bjarga fótboltanum."


Ekkert félag hefur formlega yfirgefið Ofurdeildina

Perez fullyrti það þá að ensku og ítölsku félögin ásamt Atlético hafi ekki yfirgefið verkefnið. Barcelona er að hugsa um að yfirgefa hana en ekkert staðfest enn í þeim efnum.

„Þetta er bara rangt. Ég held að hin félögin hafi ekki yfirgefið verkefnið. Það er skýrt í samningnum að það er ekki hægt að hætta við. Meirihlutinn af fólkinu sem er í þessu eru framkvæmdastjórarar sem þekkja þennan heim."

„Þessi félög hafa unnið fyrir þessu. Þau hafa unnið fyrir þessu síðustu tuttugu árin og eru með flesta fylgjendur á samfélagsmiðlum og flesta stuðningsmenn í heiminum."

„Juventus og Milan eru ekki farin alla vega. Barcelona er að íhuga hlutina. Við getum kannski breytt fyrirkomulaginu þannig að fjögur efstu á Englandi verði með og sama með Spán. Það mikilvæga er að stóru liðin spili svo að börnin geti horft á fótbolta."

„Stofnendur deildarinnar höfðu trú á þessu verkefni. Þetta er ekki dautt og við munum halda áfram að vinna í þessu."


Á erfitt með að horfa á suma leiki

Perez ráðfærði sig ekki við stjórnarmeðlimi Real Madrid áður en Ofurdeildin fór í loftið. Hann segir það ekki vera vandamál.

„Þarf ég að spyrja þá hvaða leikmenn ég á að kaupa líka? Ef ég segi stuðningsmönnum Real Madrid að við munum spila við Manchester-liðin eða Barcelona í hverri viku. Heldur þú að þeir myndu neita því?"

„Heldur þú að þeir vilji að allt verði eins og það hefur verið til þessa? Það að spila gegn stóru liðunum í stað þess að spila leiki sem eru ekki áhugaverðir fram að 8-liða úrslitum. Það eru sumir leikir í þessari keppni sem ég á erfitt með að horfa á."


„Í tennis þá mætir Roger Federer kannski Rafael Nadal. Fólk fer ekki að horfa á Nadal mæta þeim sem er í 80. sæti á heimslistanum," sagði hann ennfremur.

Stuðningsmenn Chelsea voru með mótmæli fyrir utan Stamford Bridge fyrir leik liðsins gegn Brighton á dögunum en Perez er með hugmynd um hvernig það atvikaðist.

„Hver kom með þessa stuðningsmenn á mótmælin? Það voru 40 hræður þarna og ég gæti sagt ykkur hver kom með þá. Það er sami aðili sem gaf leikmönnum Cadiz boli til að mótmæla Ofurdeildinni fyrir leikinn gegn Real Madrid í gær."
Athugasemdir
banner