Joao Pedro í forgangi hjá Liverpool - Man Utd setur verðmiða á Rashford - Real Madrid missir vonina gagnvart Davies
   fim 22. ágúst 2024 12:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kompany spurður út í Jóa Berg - „Vertu þá reiður við einn aðalmanninn"
Vincent Kompany.
Vincent Kompany.
Mynd: Bayern München
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vincent Kompany, stjóri Bayern München, tjáði sig nýverið um myndband af sér á æfingasvæðinu hjá Burnley þar sem hann öskraði ítrekað á íslenska landsliðsmanninn, Jóhann Berg Guðmundsson.

Kompany stýrði Burnley frá 2022 til þessa árs, en hann fór svo óvænt til Bayern í sumar.

Jóhann Berg var leikmaður hans hjá Burnley en fyrir stuttu var birt atriði úr heimildarmynd á vegum félagsins þar sem mátti sjá Kompany garga á Jóa Berg. Kompany er alls ekki sáttur með viðhorf íslenska landsliðsmannsins á æfingunni.

„Líkamstjáningin er ömurleg, andskotinn hafi það," sagði Kompany brjálaður og bætti við að Jóhann Berg ætti að hætta að væla.

Hann blótaði gríðarlega oft í myndbandinu en það hefur verið mikið til umræðu hér á Íslandi, sem og erlendis, síðustu daga. Kompany var spurður út í myndbandi á blaðamannafundi fyrir leik hjá Bayern.

„Ég ætti kannski ekki að segja neitt en ég er til í að segja smá til að setja þetta í samhengi," sagði Kompany.

„Ég varð reiður í þessu myndbandi en fyrir þjálfara sem eru uppi núna þá er mikið um heimildarmyndir og það hefur verið þannig hjá öllum félögum sem ég hef stýrt. Allar æfingar eru myndaðar og allir fundir."

„Á þessum augnablikum ertu að mynda stundir sem eru raunverulegar. Þú ert að berjast um að halda þér í deildinni og ef þú tapar, þá gæti fólk misst vinnuna sína. Þetta hefur stórar afleiðingar," segir Kompany.

„Aðalmálið eru skilaboðin á bak við þetta. Ef þú ert reiður við leikmann af því að hann er lélegur eða á lélega sendingu, það snýst ekki um það. Ef þú ert reiður af því að þér finnst að leikmennirnir eigi að hlaupa meira eða vera með betri líkamstjáningu, mér finnst það sanngjarnt. Leikmenn gera mistök. Þú ert ekki reiður við ungan leikmann sem er auðvelt skotmark. Þegar þú ert reiður, vertu þá reiður við einn aðalmanninn. Þú veist hversu mikilvægt það er að þeir setji fordæmi."

Jóhann Berg var einn reynslumesti leikmaður Burnley í þjálfaratíð Kompany en hann er núna á leið til Sádi-Arabíu þar sem hann mun skrifa undir samning hjá Al-Orobah FC.


Athugasemdir
banner
banner
banner