Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   mið 22. september 2021 23:09
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þorlákur hefur rætt við nokkur félög - „Ákveð mig í næstu viku"
Talar hvorki um Indriða né Aron Þórð í eintölu
Þorlákur Árnason
Þorlákur Árnason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Indriði Áki Þorláksson
Indriði Áki Þorláksson
Mynd: Raggi Óla
Þorlákur Árnason hætti í sumar sem yfirmaður fótboltamála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong. Hann hafði starfað hjá sambandinu síðan í janúar 2019.

Sjá einnig:
Láki hættir hjá Hong Kong í sumar

Þorlákur er reyndur þjálfari, hann hefur þjálfað U17 ára landslið karla og einnig stýrt meistaraflokki karla hjá Val og Fylki sem og meistaraflokki kvenna hjá Stjörnunni á sínum þjálfaraferli. Áður en hann hélt til Hong Kong var hann yfirmaður Hæfileikmótunar hjá KSÍ.

Þorlákur var í dag orðaður við þjálfarastarfið hjá Þór á Akureyri. Fótbolti.net sló á þráðinn til hans í dag og forvitnaðist um stöðu mála.

„Ég held það sé best að ég tjái mig ekki um nein félög," sagði Þorlákur léttur þegar fréttaritari spurði hvort hann hefði kíkt norður í dag. Láki, eins og hann er oft kallaður, var staddur í Reykjavík þegar fréttaritari hringdi. „Þetta skýrist allt í næstu viku."

Ertu að sækjast eftir þjálfarastöðu hjá félögum eða einhverju öðru hlutverki? „Ég er í rauninni ekki að sækjast eftir neinu. Ég hef bara heyrt í nokkrum félögum og þau vilja fá mig til þess að þjálfa. Þar liggur hugurinn, að fara þjálfa."

Láki sér fram á að þjálfa lið hér á Íslandi næsta sumar. Eitthvað hafði verið hvíslað um möguleikann á því að Láki yrði yfirmaður fótboltamála hjá einhverju félagi.

„Já, já, ég hef aldrei rembst við hlutina, ef einhver vill fá mig til að þjálfa þá geri ég það. Ef að félagið vill að ég geri eitthvað sem rímar við það sem mig langar að gera þá er ég opinn fyrir því. Það eru mjög spennandi verkefni í boði. Ég ætla að skoða möguleikana fram yfir helgi."

Eru þetta mörg félög? „Þetta eru nokkur félög. Ég skoða þetta vandlega og ákveð mig í næstu viku."

Eru stærsti munurinn á Fram liðinu
Ein bónusspurning í lokin, átti Indriði Áki Þorláksson að vera í liði tímabilsins í Lengjudeildinni?

„Já, það er engin spurning," sagði Þorlákur og hló. „Indriði og Aron [Þórður Albertsson] eru stærsti munurinn á Fram liðinu, liðið er miklu betra og stærsti munurinn eru þeir tveir. Ef liðið væri með tvo nýja miðverði og fengi ekki á sig mark þá myndiru segja að það væri ástæðan. Það er ekki nokkur spurning að þetta er yfirburðarmiðja."

„En auðvitað er þetta vinsældakosning, ekkert hægt að væla yfir því, þeir eru búnir að standa sig frábærlega báðir. Það er ekki hægt að tala um Aron í eintölu eða Indriða í eintölu miðað við hvernig þeir spila. Maður hefur sjaldan séð svona samvinnu hjá tveimur leikmönnum,"
sagði Láki að lokum. Indriði Áki er sonur hans, svo það sé tekið fram.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner