Davies fer líklega til Real Madrid - Liverpool ræðir við Díaz - Varnarmaður Arsenal til Ítalíu?
   sun 22. september 2024 11:30
Brynjar Ingi Erluson
Bellingham gæti farið í bann - Kallaði dómarann skítseiði
Mynd: Getty Images
Jude Bellingham, leikmaður Real Madrid og enska landsliðsins, var heppinn að sleppa við rautt spjald í 4-1 sigri liðsins á nýliðum Espanyol í La Liga í gær.

Englendingurinn fékk gula spjaldið fyrir að mótmæla ákvörðun Jose Luis Munuera Montero, dómara leiksins.

Eftir að Bellingham fékk að líta spjaldið virtist hann nokkuð augljóslega kalla dómara leiksins „skítseiði“ en slapp við rautt spjald.

Real Madrid tókst að koma til baka í leiknum og vinna 4-1, eftir að hafa lent marki undir.

Saul, leikmaður Sevilla, fékk að líta rauða spjaldið á dögunum fyrir að kalla dómara leiksins hræðilegan í markalausa jafnteflinu gegn Mallorca. Hann fékk tveggja leikja bann og er enn möguleiki á að aganefnd deildarinnar dæmi Bellingham í bann.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hegðun Bellingham innan vallar er til umræðu. Þegar enski miðjumaðurinn var á mála hjá Borussia Dortmund gagnrýndi hann Felix Zwayer, dómara í tapi liðsins gegn Bayern München, þar sem hann skaut á að hann hafi verið dæmdur fyrir að hagræða úrslitum. Hann var sektaður um 40 þúsund evrur fyrir ummælin.

Á Evrópumótinu í sumar bauð hann þá upp á vafasamt látbragð er hann fagnaði marki fyrir framan bekk Slóvakíu. Eftir leikinn sagði Bellingham að fagninu hafi verið beint að vinum hans í stúkunni og um væri að ræða einkabrandara. Bellingham fékk 30 þúsund evrur í sekt og einn leik í skilorðsbundið bann.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner