Taka tækniþjálfun yngri leikmanna föstum tökum
Síðastliðið haust fór fótboltamaðurinn og þjálfarinn Ingólfur Sigurðsson af stað með fyrirtækið Tækniþjálfun. Þar er boðið upp á námskeið, opnar æfingar og einstaklingsþjálfun.
Hingað til hefur þjálfunin verið fyrir leikmenn sem eru í 6. flokki og alveg upp í 4. flokk.
Hingað til hefur þjálfunin verið fyrir leikmenn sem eru í 6. flokki og alveg upp í 4. flokk.
„Þetta er hugmynd sem hefur blundað í mér lengi. Ég hef af og til verið með námskeið fyrir einstaklinga og litla hópa. Mér finnst skemmtilegasti hluti þjálfunar að vinna í tæknilegri getu leikmanna og leggja áherslu á einstaklinginn. Ég ákvað síðan að taka þetta föstum tökum í vetur, fékk frábæra menn með mér og stofnaði Tækniþjálfun til að bjóða upp á vikulegar æfingar fyrir leikmenn í yngri flokkum," segir Ingólfur í samtali við Fótbolta.net.
„Æfingarnar okkar eru þannig uppsettar að það er hámarksfjöldi á hverri æfingu til þess að tryggja gæði þjálfunar. Við æfum inni á gervigrasi í glæsilegri aðstöðu Sporthússins. Svo veðrið hefur engin áhrif á æfingarnar. Við erum yfirleitt þrír þjálfarar á hverri æfingu. Við gerum miklar kröfur til okkar um að bjóða iðkendum upp á gæða æfingar og viljum skapa jákvætt og uppbyggjandi umhverfi svo iðkendum líði sem best á æfingum."
„Við höfum boðið upp á sex vikna námskeið, en þar sem yfir 85% leikmanna hafa haldið áfram hjá okkur, þá ætlum við að bjóða iðkendum okkar upp á að vera í mánaðaráskrift. Þannig viljum við koma betur til móts við foreldra og forráðamenn."
Markmið þjálfunarinnar er að bæta tæknilega getu leikmanna og veita þeim þá athygli sem þarf til að taka framförum. Þjálfunin er einstaklingsmiðuð og hentar því byrjendum, jafnt fyrir þau sem eru lengra komin.
„Við viljum bæta tæknilega getu leikmanna og virkilega þjálfa þá. Ég held að hver einasti þjálfari á Íslandi hafi upplifað að standa úti á velli, með marga leikmenn á æfingu og alltof fáa þjálfara til að geta boðið upp á alvöru æfingu. Þess vegna erum við með hámarksfjölda, því við viljum að leikmennirnir okkar fái eins mikla athygli og hægt er til að verða betri," segir Ingólfur.
Sér hann fyrir sér að taka svo Tækniþjálfun enn lengra?
„Við erum mjög sáttir við stöðuna hjá okkur í dag. Við erum með 80 leikmenn sem æfa hjá okkur í hverri einustu viku og viljum einblína á að sinna þeim vel sem við erum með. Eftirspurnin er mikil eftir að komast að og við reynum að sinna því eins og hægt er," segir Ingólfur að lokum.
Hægt er að fá nánari upplýsingar á heimasíðu Tækniþjálfun með því að smella hérna.
s
Athugasemdir