Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fim 23. mars 2017 09:00
Elvar Geir Magnússon
Shkoder, Albaníu
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Landslið í mótun - Þjálfarinn þekkti andstæðingana betur en sitt lið
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Fyrir landsleik Kosóvó og Króatíu sem fram fór í Shkoder.
Fyrir landsleik Kosóvó og Króatíu sem fram fór í Shkoder.
Mynd: Getty Images
Strákar frá Kosóvó leika sér í fótbolta í flóttamannabúðum í Makedóníu 1999.
Strákar frá Kosóvó leika sér í fótbolta í flóttamannabúðum í Makedóníu 1999.
Mynd: Getty Images
Bunjaki er landsliðsþjálfari Kosóvó.
Bunjaki er landsliðsþjálfari Kosóvó.
Mynd: Getty Images
Moska í Shkoder, borginni þar sem Ísland mætir Kosóvó.
Moska í Shkoder, borginni þar sem Ísland mætir Kosóvó.
Mynd: Getty Images
Búningar Kosóvó á markaði. Í bakgrunni er þjóðfáni Albaníu.
Búningar Kosóvó á markaði. Í bakgrunni er þjóðfáni Albaníu.
Mynd: Getty Images
Kosóvó vonast til að leikurinn gegn Íslandi annað kvöld fari í sögubækurnar sem fyrsti sigurleikur landsliðsins í mótsleik eftir að það fékk inngöngu í FIFA.

Saga landsins Kosóvó litast af þjóðlegum deilum, pólitík og stríði. Eitthvað sem hefur óumflýjanlega snert fótboltann í landinu.

Eftir um 20 ára baráttu var landslið Kosóvó loksins viðurkennt af alþjóðaknattspyrnusambandinu í fyrra. Þá hafði þegar verið dregið í riðla fyrir undankeppni HM og liðinu var því bætt við keppnina. Ekki var hægt að bæta því í H-riðil af pólitískum ástæðum vegna þess að þar er Bosnía og Herzegóvína.

I-riðill, riðill okkar Íslendinga, var niðurstaðan og lék Kosóvó sinn fyrsta keppnisleik í Finnlandi í september í fyrra. Þar leit eina stig liðsins í riðlinum hingað til dagsins ljós, 1-1 jafntefli urðu úrslitin.

Pólitíkin átti eftir að setja enn meira mark á þátttöku Kosóvó. Útileikur liðsins gegn Úkraínu var ekki spilaður í Kænugarði heldur í Kraká í Póllandi, þar sem ríkisstjórn Úkraínu viðurkennir Kosóvó ekki sem sjálfstætt ríki.

Kosóvó lýsti einhliða yfir sjálfstæði frá Serbíu 17. febrúar 2008 en hafði þá aðeins verið hluti af Serbíu að nafninu til síðan í Kosóvóstríðinu 1999. Leikmenn landsliðs Kosóvó flúðu heimaland sitt í stríðinu og fluttu líf sitt til Skandinavíu, Sviss og fleiri landa.

Þegar skipt er um landslið
Það hefur verið mikið verk fyrir knattspyrnusamband Kosóvó að setja saman landslið, það er ekki einfalt fyrir leikmann að skipta um landslið. Þó FIFA hafi verið með reglur um gjaldgengi leikmanna með landsliðum var þetta ný staða. Bestu leikmenn Kosóvó höfðu leikið fyrir önnur landslið og það var ekki ljóst fyrr en rétt fyrir fyrsta leik hvaða leikmenn væru löglegir með Kosóvó gegn Finnum.

FIFA ákvað að hver leikmaður þyrfti sjálfur að sækja um að spila fyrir Kosóvó og hvert mál yrði sérstaklega skoðað og tekið fyrir. Fyrir leikinn gegn Íslandi fengu þrír sóknarleikmenn leikheimild í fyrsta sinn.

Eins og sjá má á þessari samantekt er Kosóvó mikil fótboltaþjóð og þaðan hafa öflugir leikmenn komið, þar á meðal Granit Xhaka og Xherdan Shaqiri sem spila fyrir Sviss og hafa ekki sóst eftir því að spila fyrir Kosóvó.

Landslið Kosóvó er í mótun. Liðið er nýtt og staða þess á heimslistanum er ekki marktæk. Leið liðsins er bara í eina átt og það er upp á við. Á morgun vonast liðið til að sýna að það sé búið að taka stór skref. Eins og Heimir Hallgrímsson talar sjálfur um hefur Ísland það forskot í leiknum að vera búið að vera lengi saman.

Þjálfarinn flúði stríðið
Landsliðsþjálfari Kosóvó, Albert Bunjaki sem er fyrrum framherji, flúði til Svíþjóðar í Kosóvóstríðinu.

„Ég veit meira um finnska liðið en mitt eigið lið, það er satt!" sagði Bunjaki á fréttamannafundi áður en hann opinberaði hóp sinn fyrir fyrsta leik. Bunjaki hefur verið landsliðsþjálfari Kosóvó síðan 2009 en stærstan hluta þess tíma var ómögulegt fyrir hann að skipuleggja leiki. Fyrir undankeppnina lék Kosóvó aðeins einn leik, vináttuleik gegn Færeyjum.

Bunjaki fæddist í borginni Pristina en þegar hann var tvítugur var hann boðaður í júgóslavneska herinn, stríðið var hafið. Hann flúði þá til Svíþjóðar þar sem hann fékk hæli. Hann hefur sagt að 36 ættingjar sínir hafi týnt lífi í stríðinu.

„Ég þurfti að byggja upp nýtt líf og það var erfitt. Ég þekkti engan í Svíþjóð og var einmana," segir Bunjaki sem menntaði sig í fótboltaþjálfun og var síðan ráðinn aðstoðarþjálfari Kalmar.Í Svíþjóð kynntist hann Tord Grip sem lengi var aðstoðarmaður Sven-Göran Eriksson.

Það má segja að Grip hafi orðið lærifaðir Bunjaki en Grip er í dag, 79 ára gamall, aðstoðarþjálfari Bunjaki hjá landsliði Kosóvó.

„Ég ákvað að taka starfi landsliðsþjálfara Kosóvó til að kynnast fjölskyldunni minni og fólkinu mínu betur," sagði Bunjaki í viðtali.

Syngja ekki með þjóðsöngnum
Mótun landsliðs Kosóvó snýst einnig um það sem gerist utan vallarins og þar er enn verk að vinna. Í Kosóvó er albanski fáninn algengari en fáni heimamanna og margir fótboltaáhugamenn hafa haldið sig við stuðning við landslið Albaníu.

Leikmenn Kosóvó munu ekki syngja með þjóðsöngnum á morgun en ástæða þess er einföld. Lagið hefur ekki texta. Það er með vilja gert til að ala ekki upp á of mikilli þjóðernishyggju, eitthvað sem er skiljanlegt miðað við söguna í þessum hluta Evrópu.

Hversu langt mun landslið Kosóvó ná? Spurning sem spennandi verður að fá svör við í framtíðinni.
Athugasemdir
banner
banner