Trent búinn að semja við Real um kaup og kjör - Man Utd ætlar að losa sig við Rashford og Casemiro - United skoðar ungan Tyrkja
   sun 23. mars 2025 22:44
Ívan Guðjón Baldursson
Þjóðadeildin: Frakkland og Spánn unnu eftir vítaspyrnur
Ísland mætir Frökkum í undankeppni HM
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Frakkland og Spánn mætast í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar eftir að hafa sigrað viðureignir sínar í 8-liða úrslitunum með vítaspyrnum.

Frakkar tóku á móti Króötum í kvöld eftir 2-0 tap í Króatíu. Staðan var markalaus í leikhlé á Stade de France í París en Michael Olise skoraði og lagði upp fyrir Ousmane Dembélé til að knýja leikinn í framlengingu.

Frakkar voru sterkari aðilinn á heimavelli og fengu góð færi til að gera út um viðureignina í framlengingu en tókst ekki að setja boltann í netið. Því var vítaspyrnukeppni flautuð á og byrjuðu Króatar á því að klúðra.

Martin Baturina klúðraði og svo brenndi Franjo Ivanovic einnig af á meðan Kylian Mbappé og Aurélien Tchouaméni skoruðu úr sínum spyrnum.

Króatar skoruðu úr síðustu tveimur spyrnunum sínum á meðan varnarmennirnir Jules Koundé og Theo Hernández klúðruðu og því þurfti að fara í bráðabana.

Josip Stanisic var fyrstur til að klúðra í bráðabananum en Dayot Upamecano, liðsfélagi hans hjá FC Bayern, svaraði með marki til að tryggja Frökkum sigurinn. Þetta þýðir að Frakkar spila við Ísland í undankeppni Evrópuþjóða fyrir HM. Ísland er í erfiðum riðli með Frakklandi, Úkraínu og Aserbaídsjan.

Spánverjar mættu Hollendingum og tóku forystuna í tvígang í gríðarlega skemmtilegum slag. Mikel Oyarzabal skoraði úr vítaspyrnu snemma leiks en Memphis Depay jafnaði með marki úr vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik.

Oyarzabal kom Spánverjum yfir á ný eftir stoðsendingu frá Nico Williams en Ian Maatsen jafnaði leikinn aftur á 79. mínútu, eftir undirbúning frá Xavi Simons sem var nýkominn inn af bekknum.

Lokatölur urðu því 2-2 svo grípa þurfti til framlengingar. Þar átti Dean Huijsen magnaða stoðsendingu á Lamine Yamal þar sem ungstirnin tengdu vel saman til að taka forystuna í þriðja sinn, en það dugði ekki til.

Xavi Simons svaraði með marki úr vítaspyrnu á 109. mínútu svo lokatölur urðu 3-3 og farið var í vítaspyrnukeppni.

Noah Lang og Lamine Yamal klúðruðu fjórðu spyrnum þjóðanna svo þurfti að fara í bráðabana, en þar var það Donyell Malen sem klúðraði og gerði Pedri sigurmark Spánverja.

Frakkland 2 - 0 Króatía (2-2 samanlagt)
1-0 Michael Olise
2-0 Ousmane Dembele
5-4 í vítaspyrnukeppni

Spánn 3 - 3 Holland (5-5 samanlagt)
1-0 Mikel Oyarzabal ('8, víti)
1-1 Memphis Depay ('54, víti)
2-1 Mikel Oyarzabal ('67)
2-2 Ian Maatsen ('79)
3-2 Lamine Yamal ('103)
3-3 Xavi Simons ('109, víti)
5-4 í vítaspyrnukeppni
Athugasemdir
banner
banner
banner