Trent á barmi þess að semja við Real Madrid - Frimpong og Davies orðaðir við Liverpool - Aina orðaður við Man City
   þri 23. maí 2023 11:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Fólk var oft að spyrja hvort ég væri með sjálfsvígshugsanir"
,,Þú ert ekki ein'' - Líður betur í dag
Áslaug  Munda Gunnlaugsdóttir.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Breiðabliki í sumar.
Í leik með Breiðabliki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir Evrópumótið síðasta sumar.
Eftir Evrópumótið síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik gegn Hollandi í undankeppni HM.
Í leik gegn Hollandi í undankeppni HM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Blikum sumarið 2021.
Í leik með Blikum sumarið 2021.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég hef verið mjög nálægt því að hætta í fótbolta mjög oft og ég er bara 22 ára'
'Ég hef verið mjög nálægt því að hætta í fótbolta mjög oft og ég er bara 22 ára'
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
'Að ég sé að tala um þetta upphátt, kannski er ég að hjálpa öðrum'
'Að ég sé að tala um þetta upphátt, kannski er ég að hjálpa öðrum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðskonan ræddi við strákana í Tiltalinu.
Landsliðskonan ræddi við strákana í Tiltalinu.
Mynd: Stefan Marteinn - fotbolti.net
Landsliðskonan Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir var gestur í síðasta þættinum af Tiltalið hér á Fótbolta.net þar sem hún svaraði ýmsum spurningum og opnaði sig á persónulegum nótum.

Áslaug Munda, sem er leikmaður Breiðabliks og Harvard-háskólans í Bandaríkjunum, hefur lent í erfiðleikum með líkama sinn síðustu árin og það hefur haft mikil áhrif á hana andlega. Hún segist oft hafa íhugað að hætta í fótbolta þrátt fyrir að vera bara 22 ára gömul.

Átti mjög marga mjög erfiða daga
„Mér líður eins og ég hafi ekki spilað eins og ég sjálf síðan árið 2019. Þá byrjar þetta allt. Hvað er þetta? Hvað er að?" segir Áslaug Munda í hlaðvarpinu. Eftir tímabilið 2019 var hún valin efnilegasti leikmaður efstu deildar á Íslandi og var einnig í úrvalsliði tímabilsins. En eftir það hefur hún lent í erfiðleikum bæði líkamlega og andlega.

Hún spilaði aðeins sjö leiki í Bestu deildinni sumarið 2020 en hún var að glíma við mikla þreytu og of háan hjartslátt. Svo fékk hún slæmt höfuðhögg eftir að hún fór út í Harvard-háskólann í Bandaríkjunum.

„Það var mjög erfitt," segir Áslaug Munda um höfuðhöggið. „Þetta var á öðrum degi í skólanum, ég er með höfuðverki og ljós- og hljóðfælni. Ég átti mjög erfitt með þetta og þurfti að draga mig úr áfanga til að einfalda hlutina. Þetta kemur ofan á það að ég var búin að vera að glíma við sífella þreytu og of háan hjartslátt árið 2020. Ég var í upphitun að skokka og var bara í 190bpm. Ég kemst einhvern veginn í gegnum 2021, kem út í háskóla og spila einn leik. Ég fæ svo þetta höfuðhögg. Það bætast við höfuðverkir, ljós- og hljóðfælni og svimi ofan á það að vera alltaf þreytt og alltaf eitthvað sljó. Ég var að labba upp stiga og þurfti að setjast niður. Þetta var mjög erfiður tími, sérstaklega þá þar sem ég var að byrja í nýjum skóla á nýju tungumáli."

Áslaug Munda segir að í Bandaríkjunum sé mjög hart tekið á höfuðhöggum og fékk hún að kynnast því. Höfuðhöggið hafði áhrif á hana og það tók langan tíma að komast í gegnum það.

„Ég fékk líka Covid og það var lungnavesen - ég fór á æfingu og var búin á því. Árið 2021 kem ég mér í gegnum þetta því ég nenni ekki aftur að sitja heilt tímabil út. Ég spila sumarið 2021 líðandi illa. Ég fæ síðan höfuðhöggið og mér líður enn verr eftir það. Ég var komin með upp í kok af því að líða illa. Fótbolti er það skemmtilegasta sem ég geri. En þetta var ekki bara að hafa áhrif á mig þegar ég var að spila eða æfa. Þetta var líka þegar ég var labba, þetta var allt."

„Síðan kemur 2022 og ég hef þróað með mér þunglyndi og kvíða. Ég átti mjög marga mjög erfiða daga. Ég var ekkert að sofa, bara alls konar. Það er mjög margt sem ég þróað með mér í gegnum það að líða aldrei líkamlega vel. Ég man eftir því þegar ég kem heim 2022 og spila eitthvað, er að reyna að vera ekki súr í lærunum og halda mér niðri fyrir 200bpm í upphitun. Þetta var frekar erfitt sumar yfir höfuð, ég var mikið niðri en er að reyna að vera jákvæð og góð."

Þá myndi ég afþakka að vera í hópnum
Sumarið 2022 hugsaði hún líka mikið um Evrópumótið og hvort hún ætti skilið að fara með á mótið, en hún var valin í lokahópinn og spilaði fyrir Ísland á mótinu í Englandi.

„Ég átti erfiða daga í kringum EM hópinn. Dagurinn þegar hópurinn er tilkynntur þá er 'recovery' æfing en ég hringdi mig inn veika því ég komst ekki fram úr rúminu. Ég var bara eitthvað þung. Ég er upp í rúmi til klukkan eitt. Hann tilkynnir hópinn og ég man eftir tilfinningunni, að vera bara 'ok, flott'. Ég var búin að dreyma um það að komast á EM með landsliðinu en svo kemur stundin og þú ert ekki eins og þú átt að vera. Svo kemst ég aðeins yfir það og hugsa: 'Geggjað, ég er í EM hópnum'. Svo byrjum við undirbúninginn, við byrjum að æfa heima. Ég er að fá saltvatn í æð og eitthvað til að reyna hjálpa mér. Mér líður bara illa. Yfir allan þennan tíma var ég á mjög erfiðum stað. 'Á ég að vera hérna? Er ekki betra að einhver sem er 100 prósent, sem getur gert þetta, sé hérna. Þetta er stórt og mikilvægt'," segir Áslaug Munda.

„Við erum með púlsmæla og ég er stundum stoppuð af, þarf að stíga út af æfingu. Ég sagði við sjálfa mig á þessu stórmóti að ef við komumst á HM og ég er í sömu stöðu, þá myndi ég afþakka að vera í hópnum. Ég hefði ekki farið í gegnum annað stórmót líðandi svona. En sem betur fer eftir þetta, í lok ágúst, þá fæ ég lyf sem eru notuð við POTS sjúkdómnum sem víkka æðarnar og það hægir á hjartslættinum hjá mér. Ég á auðveldara með að byggja mig upp aftur. Ég er búin að vera á því lyfi sem hefur hjálpað mér og mér líður öðruvísi, mér líður betur. Ég fæ stundum köst en ég er ekki eins og ég var. Ég er á öðrum stað núna heldur en ég var þá."

Hún fann fyrir sektarkennd að vera í hópnum. „Ég finn fyrir sektarkennd, alveg 100 prósent. Ég sagði við sjálfa mig að ég gæti þetta, ég væri búin að spila í tvö ár svona en samt velur en hann mig svo það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því - ég hef þá verið nógu góð eða staðið mig nógu vel. En svo kemur að þessu og ég næ ekki að gera það sem ég er góð í, ég næ ekki heldur að vera til staðar fyrir hópinn með því að vera glöð og ánægð. Ég er frekar brosmild manneskja yfir höfuð og það var líka erfitt. Ég næ ekki að vera til staðar fyrir hópinn, ég var bara inni í herbergi og þetta var mjög erfitt."

Hef átt mjög erfitt með að leita mér hjálpar
Út frá því að líða illa í líkamanum þá hefur Áslaug Munda gengið í gegnum erfiðleika andlega. Síðustu ár hafa verið erfið.

„Ég fór í tíma (hjá sálfræðingi) úti vorið 2022, þegar ég er á mjög erfiðum stað. Ég var að labba út af æfingu og ég ætlaði að hætta, ætlaði bara heim. Ég ætlaði að hætta í skólanum og í fótbolta. Þetta virkaði ekki, var ekki ætlað mér. Ég fékk líka lyf fyrir kvíða og þunglyndi, eitthvað til að hjálpa mér að sofa. Það var ekkert að virka. Ég var bara vakandi alla nóttina," segir landsliðskonan.

„Ég hef átt mjög erfitt með að leita mér hjálpar, með að opna mig og tala um þetta. Ég er alltaf bara góð, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af mér. Ég vil ekki vera fyrir. Að fara til sjúkraþjálfara, þá liggur við að ég þurfi að vera tognuð í staðinn fyrir að ég sé stíf í lærinu. Það að leita mér hjálpar hefur alltaf verið erfitt og að tala um sjálfa mig hefur alltaf verið erfitt. Ég vil frekar vita hvernig þú hefur það. Ég fór til íþróttasálfræðings 2020 þegar þetta byrjaði allt fyrst og svo aftur 2022. Ég hef samt í raun aldrei verið: 'Heyrðu, þetta er það sem er í gangi og þetta er það sem ég hef upplifað í gegnum ævina'. Ég skil ekki hvernig fólk gerir þetta og ber mjög mikla virðingu fyrir fólki sem getur þetta; farið til sálfræðings, talað um sig sjálfan, talað um sína upplifun og viðurkennt að eitthvað sé að. Fyrir mig var eitthvað að líkamanum og svo þróast það í eitthvað meira."

Það var mikil óvissa um það hvað væri í gangi hjá Áslaugu, hún fór í mikinn fjölda rannsókna sem kom lítið úr. Það var óþægilegt.

„Þú ert með ungan íþróttamann sem hefur alltaf verið heilbrigður, alltaf á hreyfingu og svo kemur eitthvað móment þar sem allt fer til fjandans. Það veit enginn hvað þetta er, ég veit það ekki sjálf. Ég er að reyna að koma mér í gegnum það, ég er að reyna að spila en ég var mjög hljóðlát með þetta... hausinn minn var að springa."

„Ég hef verið mjög nálægt því að hætta í fótbolta mjög oft og ég er bara 22 ára. Ég var komin á þann stað að fólk var oft að spyrja hvort ég væri með sjálfsvígshugsanir. Ég hugsaði ekki um það en ég var á þeim stað að ef eitthvað myndi gerast þá væri það allt í lagi; ef bíll myndi keyra á mig þá væri mér alveg sama. Ég ætlaði ekki að enda þetta en ef þetta væri búið þá var mér alveg sama."

Hún vonast til að hjálpa öðrum með að segja sína sögu, með að segja frá sinni upplifun.

„Það eru ótrúlega margir sem upplifað þetta en fólk veit kannski ekki alveg hvað á að gera. Ég man eftir að hafa lært um þetta í grunnskóla, hvað er þunglyndi og hvað er kvíði. Ég hugsaði: 'Ég er alltaf brosandi og glöð, þetta mun aldrei koma fyrir mig'."

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég segi þetta upphátt. Pabbi talaði við mig í fyrra eftir að ég kom heim í fyrra. Ég spilaði á móti KR, fyrsti leikurinn minn það sumar. Ég grét endalaust. Ég vissi ekki af hverju og pabbi vissi ekki af hverju. Ég hef aldrei grátið fyrir framan neinn og hvað þá pabba. Frekar græt ég í hljóði en að fólk viti af því. Síðan horfirðu lengra og hugsar: 'Fyrir hvern er ég að gera það? Er ég að hjálpa einhverjum?' Ég hef lesið mjög mikið um POTS og íþróttakonur sem hafa fengið höfuðhögg og þróað eitthvað með sér út frá því. Það munar alveg um að lesa um þetta, að hlusta á þetta. Þú ert aldrei sú eina eða sá eini sem er að ganga í gegnum eitthvað. Að opna umræðuna gæti hjálpað öðrum að átta sig á því að 'þetta er kannski það sem ég er að ganga í gegnum, ég er ekki ein'. Að ég sé að tala um þetta upphátt, kannski er ég að hjálpa öðrum."

„Þú ert ekki ein," segir Áslaug Munda en hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér að neðan þar sem hún ræðir meira um ferilinn til þessa.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.

Þá er hægt að nálgast upplýsingar um Píeta samtökin hérna.
Tiltalið: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir
Athugasemdir
banner
banner