„Mikilvægt að ná í sigurinn í kvöld. Þeir náðu að pirra okkur aðeins í fyrri hálfleiknum, en við vorum svolítið slappir á meðan þeir voru góðir í skyndisóknunum. Við þurftum að vera þolinmóðir og í seinni náðum við að brjóta þá meira niður,“ sagði Phil Foden, leikmaður Manchester City, eftir 5-0 stórsigurinn á Spörtu Prag í Meistaradeildinni í kvöld.
Man City fór með aðeins eins marks forystu inn í hálfleikinn en Phil Foden gerði markið áður en liðið bætti við fjórum til viðbótar í þeim síðari.
„Pep sagði okkur bara að vera þolinmóðir. Það er erfitt að brjóta niður lið sem sitja svona aftarlega þannig hann sagði okkur bara að reyna ekki að flýta okkur of mikið og halda frekar bolta. Hann vill að leikmenn haldi sig sín hlutverk, vera þolinmóðir og bíða eftir að að fá boltann,“ sagði Foden.
Foden hefur ekki byrjað þetta tímabil eins og hann hefði viljað. Á síðasta tímabili var hann valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar, en hann á enn eftir að skora með Man City í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Það hefur lítið farið fyrir honum en hann segist vera að finna taktinn á ný.
„Þetta hefur verið hæg byrjun á tímabilinu hjá mér. Ég er að finna að skerpan er að koma með hverjum leiknum. Að spila í litlu svæðunum er eitthvað sem ég hef unnið í síðan ég var lítill. Ég lít alltaf aftur fyrir mig til að sjá hvað er að gerast, en annars var það gott fyrir sjálfstraustið að skora svona snemma og finna skerpuna.“
„Ég var bestur á síðasta tímabili og það er það sem allir vilja sjá. Það er staðallinn sem ég hef sett fyrir sjálfan mig og vil ólmur komast þangað aftur. Ég finn ekki fyrir pressu heldur reyni ég að njóta fótboltans og hugsa ekki of mikið um það sem gerist fyrir utan hann. Ég set hins vegar pressu á sjálfan mig að verða betri, en markmiðið er að ná sömu hæðum og á síðasta tímabili. Ég sýndi það að ég get verið stöðugur á löngu tímabili.“
Erling Braut Haaland skoraði tvö í kvöld en fyrra markið var stórbrotið mark sem hann gerði með því að teygja út löppina upp í loft og stýra boltanum með hælnum í hægra hornið. Foden segir Haaland vera viðundur.
„Ég talaði við hann eftir leik og sagði við hann að ef ég hefði reynt að gera það sem hann gerði þá hefði ég tognað í nára. Ég veit ekki hvernig hann gerði þetta, en ég held að það séu bara þessar löngu lappir. Hann er algert viðundur, er það ekki? Ég hef séð hann skora svipað mark á móti Borussia Dortmund,“ sagði Foden.
Athugasemdir