Níu Íslendingalið í Noregi komu sér áfram í þriðju umferð bikarsins í dag.
Valdimar Þór Ingimundarson var í byrjunarliði Sogndal sem vann Forde, 3-1. Hann fór a velli í hálfleik. Jónatan Ingi Jónsson kom inná sem varamaður á 77. mínútu og lagði síðan upp þriðja markið undir lok leiks.
Brynjar Ingi Bjarnason spilaði í vörn Ham/Kam sem vann 5-0 sigur á Nybergsund og þá sat Júlíus Magnússon allan tímann á varamannabekk Fredrikstad sem vann 3-0 sigur á Sprin-Jeloy.
Kristall Máni Ingason lék allan leikinn fyrir Rosenborg sem vann nauman 1-0 sigur á Trygg/Lade og Birkir Bjarnason lék þá tæpan klukkutíma fyrir Viking sem gjörsigraði Forus og Gousel, 5-0. Patrik Sigurður Gunnarsson var hvíldur á bekknum hjá Viking.
Bjarni Mark Antonsson var ekki með Start vegna meiðsla en liðið vann 2-0 sigur á Flekkeroy. Arnar Guðjónsson spilaði allan tímann í vörn Raufoss í 4-1 sigri á Brumunddal, en Hilmir Rafn MIkaelsson var ekki í leikmannahópi Tromsö sem kjöldró HIF Stein, 8-0.
Brynjólfur Andersen Willumsson var fjarri góðu gamni er Kristiansund komst áfram með 2-0 sigri á Tomrefjord og þá þurftu Ari Leifsson og félagar hans heldur betur að hafa fyrir hlutunum í 1-0 sigri á Heming. Ari lék allan tímann í vörn Strömsgodset en sigurmarkið kom í framlengingu.
Árni úr leik í bikarnum - Valgeir í tapliði
Árni Vilhjálmsson er úr leik í bikarnum eftir 3-0 tap Zalgiris gegn Kauno Zalgiris í 16-liða úrslitum. Árni kom við sögu á 60. mínútu leiksins.
Valgeir Lunddal Friðriksson og hans menn í meistaraliði Häcken töpuðu þá fyrir Djurgården, 1-0, í sænsku úrvalsdeildinni. Valgeir lék allan leikinn og nældi sér í gult spjald. Häcken er í 3. sæti með 19 stig.
Athugasemdir