Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 24. ágúst 2022 08:00
Alexander Ágúst Mar Sigurðsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Klefamenning í efstu deild á Íslandi: Það skiptir máli hverjir eru leiðtogar
Alexander Ágúst Mar Sigurðsson
Alexander Ágúst Mar Sigurðsson
Greinarhöfundur við útskriftina.
Greinarhöfundur við útskriftina.
Mynd: Aðsend
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Hugtakið klefamenning kom víða upp í umræðu um #metoo og ásakanir á hendur íslenskum landsliðsmönnum í knattspyrnu árið 2021. Þó að hugtakið sé víða notað eru fræðimenn ekki sammála um inntak þess. 


Í raun virðist það eiga við um tal og hegðun karlmanna þegar þeir koma saman í hópum og er ekki einskorðuð við búningsklefa, heldur getur átt sér stað í golfferðum, veiðiferðum, grillveislum og ýmis konar mannamótum svo dæmi séu tekin.

Í fræðunum má einnig finna hugtakið „toxic jock“ eða eitraði íþróttamaðurinn. Þar nota karlmenn niðrandi tal um konur og aðra minnihlutahópa til að lyfta sér á hærri stall innan hópsins. Það gera þeir í þeirri trú að kvenlegir eiginleikar og mýkt séu veikleikar. Einnig er markvisst hæðst að þeim sem skera sig úr á einhvern hátt, undir yfirskyni „banters“ sem er níð dulbúið sem grín og velþekkt vandamál í íþróttum.

Rannsóknir bendi þó til að það að hegða sér eins og eitraður íþróttamaður hafi einmitt þveröfug áhrif í raun. Karlmenn átta sig langflestir á muninum á réttu og röngu í þessum efnum, en hættir til að láta undan þrýstingi og taka undir eða mótmæla ekki þegar þeir koma í hóp annarra karla. Versta birtingarmynd þessarar menningar getur leitt til kynferðisofbeldis.

Síðastliðinn vetur gerði Alexander Mar Sigurðsson B.S. rannsókn við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Leiðbeinandi var Daði Rafnsson.Meginmarkmið rannsóknarinnar, sem var eigindleg var að kanna viðhorf knattspyrnumanna úr efstu deild á Íslandi til hugtaksins klefamenningar. Tekin voru viðtöl við íslenska knattspyrnumenn sem áttu að minnsta kosti 50 leiki að baki í efstu deild. Aldursbil var 17 ár frá þeim yngsta til þess elsta og höfðu margir spilað erlendis eða komið við sögu hjá A landsliði Íslands.

Helstu niðurstöður voru eftirfarandi:

Klefamenning getur verið neikvæð en sömuleiðis jákvæð

Þó að leikmenn könnuðust við að hafa upplifað neikvæða klefamenningu, var það sjaldan innan sjálfs klefans. Nafnið á hugtakinu virðist þannig skapa miskilning um það sem er raunverulega verið að ræða. Þátttakendur vildu meina að það væri mun meira jákvætt við það að tilheyra liði. Lagt var til að aðgreina eitraða klefamenningu frá klefastemningu sem hefur jákvæðara innihald. Þar skapaðist jákvæð vinátta, samstaða og samvinna sem skipti leikmenn sem manneskjur miklu máli. Leikmenn þrífast á því að tilheyra og vinna í sömu átt og ná árangri með öflugum hópi.

Það skiptir öllu máli hverjir eru leiðtogar innan hóps upp á hvort menningin sé neikvæð eða jákvæð

Eins og í flestum öðrum geirum skiptir máli hver setur tóninn. Það á við um þjálfara og aðra starfsmenn, sem og helstu leiðtoga leikmannahópsins. Ef helstu leiðtogarnir eru jákvæðir og leggja sig fram um að skapa gott umhverfi þá verður útkoman sú hin sama. Sömuleiðis ef þeir eru neikvæðir og útilokandi. Þetta er umhugsunarefni fyrir stjórnendur félaga þegar þeir eru að ráða til sín starfsmenn og sækja leikmenn.

Klefamenningin hefur breyst mikið undanfarin áratug á jákvæðan hátt

Eldri leikmenn sögðu menninguna gjörbreytta frá því þegar þeir komu inn í meistaraflokk. Þá hefði niðurlæging og banter verið mun meira áberandi og ungum leikmönnum var uppálagt að taka því og taka þátt. Annars stæðust þeir ekki kröfur knattspyrnunnar sem væri leikur fyrir alvöru karlmenn. Nú til dags leggi mun fleiri eldri leikmenn meiri áherslu á að hlutverk þeirra sé að leiðbeina og aðstoða þá yngri. Menningin væri heilt yfir að breytast í jákvæða átt. Athyglisvert var að sumir þátttakendur töluðu af eigin reynslu um að menningu innan A landsliðs karla hefði verið ábótvant, og á skjön við jákvæðari menningu í sínum félagsliðum. Það væri eins og menn tækju skref niður á við í þroska þegar þeir kæmu í landsliðið.

Ýtt er undir einsleita menningu innan knattspyrnunnar

Leikmenn í efstu deildar eru alls konar, með mismunandi bakgrunn, skoðanir, tilfinningar, langanir og þrár. Þó finnst knattspyrnumönnum þeir ekki hafa rými eða tækifæri til að deila tilfinningum sínum og skoðunum. Sérstaklega ekki ef þær ganga gegn meginstraumnum og þeir eru hræddir við að vera útskúfaðir. Íþróttafólk eru eftir allt saman ekki ofurmenni, heldur venjulegt fólk með mismunandi bakgrunn og aðstæður í sínu lífi. Stór þáttur sem ýtir undir andlega vanlíðan er klefamenning sem einkennist af ótta, ofbeldi eða niðurlægingu.

Knattspyrnan getur gert betur

Eins og áður hefur komið fram eru knattspyrnumenn bara venjulegt fólk. Þeir glíma við sömu áskoranir og aðrir en eyða stórum hluta lífs síns í miklu samkeppnisumhverfi sem er einsleitt í þokkabót. Því er mikilvægt að skapa umhverfi þar sem sálfræðilegt öryggi er í fyrirrúmi og einstaklingar hafi svigrúm til að vera þeir sjálfir.

Enn má finna dæmi þess að banter sé notaður til að niðurlægja aðra, leikmenn séu sektaðir fyrir að deila ekki kynlífssögum og að neikvæðir leiðtogar skapi stemningu sem einkennist af ótta. Þó horfir í betri átt og vonandi verður svo áfram. Innan íþrótta þrífst víða líkingarmál stríðs og átaka þar sem hefðbundnar karlmennskuímyndir eru hafnar á loft. Þótt þær séu oft tengdar við árangur geta þær mögulega verið meira hamlandi í raun.

Knattspyrnan á sér ekki stað í einangruðu umhverfi, heldur er hún partur af samfélaginu og því er uppálagt fyrir stjórnendur og leiðtoga að leggja rækt við þætti á borð við samvinnu, samstöðu og vellíðan. Að velja jákvæða leiðtoga til starfa sem gæta þess að leikmenn geti tjáð sig um sínar tilfinningar og skoðanir án ótta við afleiðingar.

Einn þátttakandi benti á hið augljósa, að knattspyrnan væri harður heimur og ekki væri mikið svigrúm fyrir veikleika. Ýmislegt bendir þó til að leikmenn séu frekar til í að berjast fyrir hvorn annan í keppni líði þeim vel. Einnig er til margs unnið að tryggja fjölbreytni á vinnustaðnum sem knattspyrnan er. Að lokum skal minnst á að allir þátttakendur töldu að ef samkynhneigður leikmaður kæmi út úr skápnum yrði honum vel tekið í því umhverfi sem þrífst í klefum nútímans. En skildu að sama skapi ástæður þess að enginn hefur tekið skrefið hingað til.

Hér eru dæmi um svör fótboltamanna:

„Klefamenning er byggð á sleggjudómum og alhæfingum um alla en ekki þá sem eiga að fá skítinn”.

„Ef við eigum að eiga þetta samtal þá þarf að fá upplifun þeirra sem hafa verið í klefum. Þetta má ekki bara vera þeir sem hafa ekki komið nálægt þessu, lesa um eitthvað ofbeldismál og fara svo að tjá sig á Twitter”.

„Það var alveg einelti hjá eldri leikmönnum gagnvart yngri. Eldri leikmenn réðu bara öllu og þú áttir bara gera það sem þér var sagt að gera”.“Þetta hefur breyst mikið, nú eru eldri leikmenn að taka leikmenn til sín og vernda þá frá þessu”.

„Ég segi banter til að fá viðbrögð og þetta er kallað klefastemning. Við köllum þetta stemningu útaf því það er gaman að vera þarna og klefamenning er alltíeinu orðið voða neikvætt. Maður kemur hingað fyrir klefastemninguna”.“En þetta er mjög persónubundið og ég get ímyndað mér það að þetta hentar ekki öllum”.

„Það var verið að djöflast í mönnum endalaust, munnlegt og refsingar, sem myndaði góða stemningu. Þú áttar þig frekar fljótt á því að það er ekkert persónulegt á bakvið þetta og það sem mer finnst skemmtilegt við þá að þeir tóku aldrei neinu persónulega þú gast sagt hvað sem þú vildir við hvern sem er”.

„Þú ert náttúrulega alltaf eitthvað skotmark í klefanum, það er bara þannig. Það sem gerir klefann svoldið að klefanum er að allir eru frekar opnir og auðvitað getur þetta verið á mörkunum við það að vera ógeðslegt en já þú þarft að geta tekið einhverju svona og oftast er þetta góðlátlegt grín en auðvitað veit maður aldrei”.
„Leikmanni sem líður illa finnst vanta uppá traustið í þá átt að geta deilt hvernig honum líður, það er ekki gúdderað“.

„Klefamenning er það sem myndast þegar liðið er búið að vera saman ákveðið lengi og það er komið ákveðið traust á milli leikmanna og ákveðnir hlutir sem að okkur finnst vera í lagi inn í klefa sem eru ekki í lagi annarstaðar, í tali eða bröndurum eða einhverju slíku. Það myndast útaf traustinu sem er innan hópsins“.

„Landsliðið er ekki staður né stund fyrir veiklyindi. Snýst um að vinna leiki”.

„Menn eru komnir út úr sínu umhverfi sem þeir eru fastir í og þeir eru kannski með einhverja djöfla og þarna telja þeir sig geta komist upp með þá án þess að það fari í eitthvað venjulegt umhverfi og þetta fær að grassera ef að kúltúrinn leyfir það”.

Það má hafa samband við höfundinn í netfangið [email protected]
Ritgerðin
Alexander Mar
Daði Rafnsson

Athugasemdir
banner
banner