Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, segist ekki hafa miklar áhyggjur af því að fólk sé að gagnrýna hann fyrir hlutverk hans hjá enska félaginu.
Ronaldo snéri aftur til United í sumar frá Juventus og hefur þegar skorað sex mörk í níu leikjum.
Hann hefur fengið mikla gagnrýni fyrir að sinna ekki varnarskyldum en Ronaldo gefur þó lítið fyrir það.
Ronaldo skilur að menn séu gagnrýndir en hann ætlar að halda áfram að þagga niður í fólki og vinna leiki og bikara.
„Ég veit það vel að liðið þarfnast minnar hjálpar varnarlega, en hlutverk mitt hjá þessu félagi er að vinna og hjálpa liðinu að vinna og skora mörk. Varnarhlutverkið er partur af starfinu," sagði Ronaldo.
„Því fólki sem líkar ekki vel við mig sér það auðvitað ekki en ef ég á að vera hreinskilinn þá er ég 36 ára gamall og ég vinn allt, þannig á ég að hafa áhyggjur af því að fólk sé að segja slæma hluti um mig?"
„Ég sef vel á nóttunni. Ég fer upp í rúm með hreina samvisku og mun halda því áfram því ég mun þagga niður í fólki og halda áfram að vinna hluti."
„Gagnrýni er partur af þessu. Ég hef engar áhyggjur af því og get ekki séð neitt nema gott úr þessu ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Ef þetta fólk hefur áhyggjur af mér eða talar um mig þá er það af því ég er ennþá einhvers virði í fótboltanum."
„Þannig þetta er allt í góðu. Ég skal gefa ykkur dæmi: Ef þú ert í skóla og ert besti nemandinn og þú ferð og spyrð slakasta nemandann hvort honum líkar vel við þann besta þá mun sá nemandi pottþétt segja nei."
„Aðalmálið í þessu öllu er að ég er enn ánægður og nýt þess að spila fótbolta. Það skiptir ekki máli hvað ég hef unnið mikið á mínum ferli. Ég vinn allt en hef enn hvatningu til að spila."
„Ég er á nýjum kafla í mínu lífi og þrátt fyrir aldurinn þá er ég hér til að reyna að vinna og ég held að Manchester United þurfi á þessu að halda og þurfi að vinna stóra hluti og ég er hér til að hjálpa til við það," sagði Ronaldo í lokin.
Athugasemdir