Landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason vill gleyma kvöldinu sem allra fyrst en hann fékk á sig tvær vítaspyrnur og var síðan rekinn af velli í dramatískum 3-2 sigri Midtjylland gegn AGF í dönsku úrvalsdeildinni.
Varnarmaðurinn fékk á sig vítaspyrnu á 7. mínútu er hann tók samherja sinn í landsliðinu, Mikael Neville Anderson, niður í teignum, en einhverjir voru á því máli að hann hafi átt að fá að líta rauða spjaldið.
Hann slapp með gult spjald og skoruðu AGF-menn úr spyrnunni. Gestirnir í Midtjylland jöfnuðu leikinn undir lok fyrri hálfleiks og komust síðan yfir snemma í þeim síðari áður en Paulinho, leikmaður liðsins, fékk sitt annað gula spjald.
Þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum braut Sverrir aftur af sér í teignum og fékk hann sitt annað gula spjald og þar með rautt. Erfitt kvöld hjá miðverðinum.
AGF jafnaði en leikmenn Midtjylland sýndu mikinn karakter með því að skora sigurmarkið seint í uppbótartíma. Midtjylland er nú í öðru sæti með 39 stig, einu stigi frá toppnum.
Mikael Neville og félagar í AGF eru í 5. sæti með 29 stig.
Athugasemdir