Enski bakvörðurinn Reece James verður ekki með enska landsliðshópnum í næsta leik í undankeppni EM 2024, sem er á heimavelli gegn Úkraínu á morgun.
James hefur verið að glíma við meiðslavandræði allt tímabilið og hefur til að mynda aðeins komið við sögu í 12 úrvalsdeildarleikjum með Chelsea.
James kom inn af bekknum í 1-2 sigri Englendinga á Ítalíu í vikunni og fékk að spila síðustu tíu mínúturnar. Hann er gríðarlega öflugur leikmaður sem sinnir algjöru lykilhlutverki bæði innan herbúða Englands og hjá Chelsea.
Það er mikill missir að missa leikmann á borð við James í meiðsli en hann verður undir umsjá læknateymis Chelsea næstu daga.
Gareth Southgate landsliðsþjálfari ætlar ekki að kalla neinn leikmann upp í enska landsliðshópinn þrátt fyrir að hafa aðeins úr 18 útispilandi leikmönnum að moða vegna meiðsla.
Nick Pope, Mason Mount og Marcus Rashford hafa dregið sig úr landsliðshópnum vegna meiðsla og þá er Luke Shaw í leikbanni. Miðjumennirnir Jordan Henderson og Jude Bellingham eru báðir tæpir.