Paulo Wanchope, fyrrum leikmaður Manchester City, hefur engar áhyggjur af framtíð félagsins, hvort sem félagið verði dæmt niður um deild eða ekki.
Enska úrvalsdeildin kærði Manchester City fyrir 115 brot á fjárhagsreglum deildarinnar.
Rannsókn deildarinnar hófst árið 2018 og var kæran gefin út í febrúar á síðasta ári en Man City mun þurfa að svara fyrir kærurnar eftir þetta tímabil.
Möguleiki er á því að Man City verði svipt titlum og dæmt niður um deild en það á eftir að koma betur í ljós. Wanchope, sem lék með Man City frá 2000 til 2004, meðal annars eitt tímabil í B-deildinni, telur að það verði allt í lagi með félagið þó það verði dæmt niður um deild.
„Þeir munu koma til baka, hvað sem gerist í þessu. Kjarni stuðningsfólksins er afar sterkur. Það er ástæðan fyrir því að allt gengur svo vel núna, því þeir hafa áður upplifað erfiða tíma og þeir komust í gegnum þá tíma. Ég man þegar þeir voru að spila í B- og C-deildunum, en þrátt fyrir það stóðu stuðningsmenn á bakvið þá enda eru þeir afar sérstakir. Ég hef engar áhyggjur hvað sem gerist, en vonandi verða engar skaðlegar refsingar,” sagði hann við Daily Star.
Athugasemdir