Trent búinn að semja við Real um kaup og kjör - Man Utd ætlar að losa sig við Rashford og Casemiro - United skoðar ungan Tyrkja
   þri 25. mars 2025 11:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimir Guðjóns: FH er 3-4 árum á eftir toppliðunum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldur Sigurðsson er umsjónarmaður sjónvarpsþáttanna Lengsta undirbúningstímabil í heimi. Annar þátturinn í þriðju seríu var frumsýndur á Stöð 2 Sport í gær og kíkti Baldur þá í heimsókn til FH og ræddi þar við þjálfarann Heimi Guðjónsson og leikmanninn Böðvar Böðvarsson.

Heimir ræddi m.a. um síðasta tímabil og komandi tímabil. Hann segir að botninn hafi svolítið dottið úr tímabili FH þegar KA, sem endaði í 7. sæti deildarinnar, varð bikarmeistari og þá varð ljóst að 4. sætið í deildinni myndi ekki gefa Evrópusæti, heldur einungis efstu þrjú sætin. FH endaði tímabilið illa, lék ekki vel eftir tvískiptingu og endaði í 6. sæti deildarinnar.

„Yfirlýst markmið (2024) var að koma liðinu í Evrópukeppni, áttum ennþá möguleika á því. En af því KA varð bikarmeistari, þá sáu menn að þetta yrði djöfulli erfitt og við einhvern veginn gáfum eftir í úrslitakeppninni."

Heimir sagði í viðtali við Fótbolta.net í síðasta mánuði að markmið FH væri að komast í topp sex. Baldur spurði hvers vegna það væri ekki Evrópusæti.

„Við verðum alltaf að byrja einhvers staðar. Það eru 22 leikir, þá er komist í topp sex. Svo þegar það heppnast þá setjumst við aftur niður og förum yfir hitt."

Heimir var spurður út í peningana sem eru komnir í íslenska boltann.

„Ef þú tekur Breiðablik og Víking sem dæmi, þá er búið að ganga vel og bæði þessi lið hafa komist í riðla/deildarkeppni Sambandsdeildarinnar, það er eins og við vitum töluverður peningur þar. Við vitum náttúrulega að Valur á pening. Það er ekkert óeðlilegt við það að þessir klúbbar sem eiga pening séu að nota hann. Finnst mér þetta kannski orðið aðeins of mikið? Já, mögulega, en ég hef alltaf litið á þetta þannig að klúbbur eins og FH eigi að hugsa hvernig komumst við þangað (þar sem hin félögin eru)."

Baldur spurði hversu langt á eftir FH væri. „Það er góð spurning. Kannski svona 3-4 ár, myndi ég halda."

Evrópusæti og ekkert annað
Böddi, eins og Böðvar er yfirleitt kallaður, var ákveðnari þegar hann ræddi um markmið FH á komandi tímabili.

„Þegar allir eru heilir þá erum við með mjög góðan leikmannahóp. Markmiðið er að ná Evrópusæti og mun vera það þangað til að við náum því. Við getum náð í gegnum bikarinn eða með því að enda í 3.-4. sæti, þannig það er nóg af möguleikum. Það er ekkert annað sem kemur til greina. Ég er ekki að fara eyða 10 mánuðum af ævi minna að hugsa bara um það að komast í efri hlutann, það bara gengur ekki. Fyrsta markmið er Evrópukeppni, fá einhvern pening inn í þennan klúbb og byggja ofan á það. Þá getum við talað saman eftir 2-3 ár og séð hvort ég sé ekki að halda á (bikar) þá," sagði Böddi.
Athugasemdir
banner
banner
banner