Zubimendi nálgast Arsenal - Man Utd gæti skipt Höjlund út fyrir Lookman - Tottenham vill Rashford
   fös 25. apríl 2025 10:58
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Hvenær á hann þá að spila?"
Andi Hoti.
Andi Hoti.
Mynd: Valur
Srdjan Tufegdzic, Túfa.
Srdjan Tufegdzic, Túfa.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það vakti athygli þegar leikmannahópur Vals fyrir leikinn gegn KA var opinberaður að Andi Hoti var ekki í leikmannahópi Vals. Andi er 22 ára miðvörður sem Valur keypti frá Leikni í vetur.

Hann á eftir að koma við sögu í deildinni með Val en kom inn á sem varamaður gegn Grindavík í bikarnum um síðustu helgi. Rætt var um Andi og kaupstefnu Vals í Innkastinu þar sem 3. umferð Bestu deildarinnar var gerð upp.

Lestu um leikinn: Valur 3 -  1 KA

„Valur tekur inn Andi Hoti og svo Stefán Gísla Stefánsson í vetur. Til hvers? Hver er pælingin?" veltir undirritaður fyrir sér.

„Ég hlustaði á Niðurtalninguna hjá Gumma, stuðningsmenn Vals, þá var verið að tala um Andi Hoti. Þeir sögðu að við viljum bara sjá að það sé einhver pæling með hann. Valur hefur verið að sækja unga leikmenn undanfarin ár en það virðist ekki vera nein pæling á bakvið það," sagði Elvar Geir.

„Valur var með Markus Nakkim tæpan, hann fer út af í hálfleik og Hólmar Örn var í banni. Hvenær á hann (Andi) þá að spila?" spurði undirritaður sig.

„Þeir kaupa þennan leikmann á væna upphæð af Leikni og hann spilar (byrjar) ekki í bikarnum einu sinni á móti Lengjudeildarliði. Hvenær ætlarðu að nota hann?" sagði Valur Gunnarsson.

Andi virðist miðað við leikinn í gær vera á eftir þeim Hólmari Erni Eyjólfssyni, Markus Nakkim, Bjarna Mark Antonssyni og Orra Sigurði Ómarssyni í goggunarröðinni.

Lætur stjórn Vals líta furðulega út
Þjálfarinn á að velja hópinn og enginn utan þjálfarateymisins á að hafa áhrif á liðsvalið. En svo er ákveðin stefna sem unnið er eftir hjá allavega sumum félögum. Ákvörðun þjálfarans, Túfa, að hafa Andi ekki í hóp lætur stjórn Vals líta furðulega út, því til hvers er verið að kaupa hann á milljónir ef það á ekki að nota hann?

Á facebook-reikningi fótboltadeildar Vals var vakin athygli á því í síðustu viku að ungir og efnilegir leikmenn hefðu skrifað undir í vetur. „Allt er þetta hluti af þeirri vegferð okkar að styrkja félagið til framtíðar. Þá er mikið af flottum strákum að koma upp í 2. og 3. flokki hjá okkur sem við gerum miklar væntingar til," var skrifað.

Umboðsmaðurinn Bjarki Gunnlaugsson var að ræða nákvæmlega þetta í viðtali við Dr. Football í byrjun mánaðar. Af hverju eiga umboðsmenn að horfa til Vals með unga leikmenn sína ef ungir leikmenn spila ekkert hjá Val? Valsarar eru með efnilega leikmenn, fyrrnefndan Stefán Gísla og einnig Birki Jakob Jónsson. Miðað við leikinn gegn KA, á heimavelli, þá lítur staða þeirra ekki glæsilega út.
Innkastið - Báðir nýliðarnir lögðu Víking
Athugasemdir
banner