Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 25. maí 2023 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tryggvi Guðmunds spáir í stórleiki kvöldsins
Tryggvi Guðmundsson.
Tryggvi Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verður KA fyrsta liðið til að taka stig af Víkingum?
Verður KA fyrsta liðið til að taka stig af Víkingum?
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Guðmundur Andri Tryggvason.
Guðmundur Andri Tryggvason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það eru tveir sannkallaðir stórleikir á dagskrá í Bestu deildinni í kvöld. KA tekur á móti Víkingum, sem hafa unnið alla sína leiki, og Breiðablik fær Valsmenn í heimsókn.

Við fengum Tryggva Guðmundsson, markahæsta leikmann í sögu efstu deildar, til að skoða leikina sem eru framundan í kvöld.

KA - Víkingur R.
Ef maður skoðar úrslit liðanna það sem af er móti þá myndi maður hoppa á sigur Víkinga í þessum leik þar sem þeir eru náttúrulega með fullt hús stiga. Þetta hefur verið svakaleg byrjun hjá þeim og það er ekkert hægt að kvarta yfir henni. Þeir hafa sýnt mjög góða leiki, en hafa stundum kannski haft heppnina með sér. Þeir eru með feikilega vel mannað lið en það er hægt að segja það sama um KA, þó það sé ekki alveg jafn vel mannað lið.

KA-menn ætluðu sér stóra hluti en hafa ekki byrjað nægilega vel. Þetta er afskaplega mikilvægur leikur fyrir þá. Þeir eru - þykist ég vita - nokkuð ósáttir við sína byrjun á þessu móti. Þetta er heimaleikur fyrir þá gegn liði sem hefur ekki tapað stigi. Fyrir mót ætlaði KA sér í toppbaráttu með Víkingum, Blikum og Valsmönnum, þeir ætluðu að blanda sér í hóp þessara liða. Ef þeir ætla að gera það, þá verða þeir að vinna þennan leik.

Þetta verður jafn leikur held ég og ekki endilega mjög opinn. Það er samt týpískt að maður segi þetta og það verði 3-3 í hálfleik. Ég sé fyrir mér stöðubaráttu og hugsanlega einhver mörk úr föstum leikatriðum. Bæði lið eru nokkuð öflug í þeim. Svo eru bæði lið með menn sem geta sprengt upp leiki. Þetta verður stál í stál. Ég er eiginlega að vonast til þess - fyrir okkur hlutlausu - að KA vinni leikinn. Þannig að Víkingur stingi ekki af. Ég ætla að tippa á 2-1 sigur KA í þessum leik. Þetta er meira óskhyggja frekar en einhver speki samt.

Spá Tryggva: KA 2 - 1 Víkingur R.

Breiðablik - Valur
Þetta er alvöru leikur, þarna erum við með liðin í öðru og þriðja sæti. Eins og hjá KA og Víkingum, þá er stefnan sett á titil hjá báðum þessum liðum. Bæði lið eru að elta Víkinga og það segir sig sjálft að þau þurfa að taka stigin þrjú í þeirri baráttu. En þau geta ekki bæði fengið þrjú stig. Ég á auðvitað líka bara von á hörkuleik þarna. Blikarnir unnu Valsmenn 2-0 í leik liðanna í annarri umferð á Hlíðarenda. Valsmenn hafa harma að hefna. Ég held pínu með Val - kannski eðlilega - þar sem sonur minn, Guðmundur Andri, spilar þar.

Það er rosaleg jafnteflislykt af þessum leik en ég ætla að segja 1-2 fyrir Val. Ég held að þeir nái að hefna sín. Guðmundur Andri gerir sigurmarkið í þessum leik. Það er búið að vera gaman að fylgjast með honum Í Val. Svo er Ísabella Sara, dóttir mín, líka að spila með Val. Það er gaman að fylgjast með þeim og mér finnst þau vera að standa sig vel bæði tvö. Ég veit það fyrir víst að þeim líður afar vel á Hlíðarenda. Maður er pínu frekur, ég hefði viljað fá fleiri mörk frá þeim en það kemur bara. Það kemur í dag, samkvæmt minni spá.

Spá Tryggva: Breiðablik 1 - 2 Valur

Sjá einnig:
Arnar Grétars: Fannst það mjög ósanngjörn úrslit
Óskar Hrafn: Sá leikmaður þarf að vera eitthvað verulega skrýtinn
Haddi: Hverslags hugarfar hefði það verið?
Arnar Gunnlaugs: Þá munu voðalega fáir muna eftir þessu
Athugasemdir
banner
banner
banner