„Mér finnst óþolandi að línuvörðurinn sjái ekki þegar markvörðurinn ver fyrir utan teig," sagði Birkir Már Sævarsson varnarmaður Vals eftir 2 - 2 jafntefli við FH í Bestu-deild karla í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 2 FH
„Ef allir sem hafa séð atvikið segja það sama þá finnst mér það mjög súrt," bætti hann við.
Atvikið sem Birkir Már vísar í var á 15. mínútur leiksins þegar hann var kominn einn gegn Sindra Kristni Ólafssyni markverði sem kom út á móti honum og varði með hendi, líklega fyrir utan teiginn. Þannig brot verðskuldar almennt aukaspyrnu og rautt spjald á markmenn.
„Þeir eiga að fá rautt. Mér fannst hann verja fyrir utan teig og það er búið að segja mér að hann hafi verið fyrir utan. Ég veit ekkert um það en trúi Óla Jó vini mínum uppi í boxi og þeim inni í klefa. Þá hefðum við unnið leikinn nokkuð þægilega svo það er þungt að þeir klikki á risa augnabliki í leiknum."
Valur komst í 2 - 1 áður en þeir misstu forystuna niður í jafntefli seint í leiknum.
„Mér líður eins og við höfum tapað leiknum. Þegar við erum komnir í 2-1 á heimavelli með svona gott lið eigum við ekki að missa það niður."
Athugasemdir