Það fóru tveir leikir fram í Bestu deildinni í kvöld og úr varð hin mesta skemmtun þar sem tíu mörk voru skoruð.
KR mætti Val í fjandslag í Vesturbænum og úr varð gífurlega skemmtileg viðureign þar sem heimamenn í Vesturbæ mættu grimmir til leiks og tóku forystuna strax á þriðju mínútu.
Theódór Elmar Bjarnason skoraði þá sitt fyrsta mark fyrir KR á Íslandsmóti með flottu skoti utan teigs og komust heimamenn nokkrum sinnum nálægt því að tvöfalda forystuna en óheppni og Frederik Schram komu í veg fyrir annað mark. Aftur á móti voru það Valsarar sem gerðu jöfnunarmark gegn gangi leiksins, Haukur Páll Sigurðsson skallaði þá hornspyrnu í netið í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Seinni hálfleikurinn byrjaði ótrúlega fjörlega þar sem fjögur mörk voru skoruð á tíu mínútna kafla. Bæði lið voru vaðandi í færum á þessum kafla leiksins en KR-ingar komust nær því að gera fjórða markið sem leit þó aldrei dagsins ljós. Lokatölur urðu 3-3 í gríðarlega skemmtilegum leik og geta KR-ingar verið svekktir að fá ekki öll stigin.
Valur er í fimmta sæti með 21 stig eftir 14 umferðir. KR er með 18 stig.
KR 3 - 3 Valur
1-0 Theodór Elmar Bjarnason ('3)
1-1 Haukur Páll Sigurðsson ('45)
2-1 Sigurður Bjartur Hallsson ('52)
2-2 Hólmar Örn Eyjólfsson ('54)
3-2 Ægir Jarl Jónasson ('56)
3-3 Patrick Pedersen ('61)
ÍA tók þá á móti Fram í fallbaráttuslag þar sem nýliðarnir úr Grafarholti sýndu frábæra takta og komust í tveggja marka forystu eftir 20 mínútur.
Fyrst skoraði Magnús Þórðarson laglegt mark eftir stoðsendingu frá Alberti Hafsteinssyni sem bjó til annað mark tveimur mínútum síðar. Albert gaf þá einfalda sendingu á Má Ægisson sem ætlaði að gefa fyrirgjöf en boltinn flaug þess í stað í netið.
Staðan var 0-2 eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik þar sem færanýting Framara gerði gæfumuninn.
Alex Freyr Elísson setti þriðja mark gestanna eftir frábæran sprett í upphafi seinni hálfleiks og gerði Guðmundur Magnússon út um viðureignina með fjórða markinu á 64. mínútu.
Skagamenn virkuðu andlausir í seinni hálfleik og urðu lokatölur 0-4 fyrir Fram sem er komið sjö stigum frá fallsvæðinu. ÍA er á botni deildarinnar með 8 stig.
ÍA 0 - 4 Fram
0-1 Magnús Þórðarson ('19)
0-2 Már Ægisson ('21)
0-3 Alex Freyr Elísson ('48)
0-4 Guðmundur Magnússon ('64)