Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   þri 25. ágúst 2020 16:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Maguire dæmdur sekur
Harry Maguire.
Harry Maguire.
Mynd: Getty Images
Maguire er fyrirliði Manchester United.
Maguire er fyrirliði Manchester United.
Mynd: Getty Images
Harry Maguire, fyrirliði Manchester United og varnarmaður enska landsliðsins, var rétt í þessu dæmdur sekur um grófa líkamsárás, að berjast gegn handtöku og ítrekaðar tilraunir til að múta lögreglumönnum.

Dómstóll í Grikklandi komst að þessari niðurstöðu. Maguire og tveir aðrir sakborningar í málinu voru dæmdir sekir.

Maguire hefur verið í fréttum undanfarna daga eftir að hann var handtekinn í Grikklandi eftir að hann og félagar hans lentu í slagsmálum.

Sagan er sú að slagsmálin hafi orðið út af einhverju sem henti systur Maguire, fyrst var talað um það í fjölmiðlum í Grikklandi að hún hefði verið stungin í handlegginn. Lögmaður Maguire sagði hins vegar við réttarhöldin í dag að systir fyrirliða United hefði fallið í yfirlið eftir að tveir Albanir byrluðu henni óþekkt efni.

Maguire og föruneyti bað rútubílstjóra sinn um að aka á sjúkrahús, en lögreglumenn stöðvuðu þau. Þeir voru ekki einkennisklæddir og Ashden Morley, vinur Maguire, segir að hópurinn hafi óttast það að verið væri að ræna þeim þegar handtakan átti sér stað.

Við réttarhöldin í dag sagði lögmaður Maguire að lögreglumaður hefði sparkað í fótlegg Maguire og sagt honum að 'ferill hans væri á enda'.

„Vitið þið hver ég er? Ég er fyrirliði Manchester United. Ég er mjög ríkur og ég get gefið ykkur peninga. Ég get borgað okkur. vinsamlegast leyfið okkur að fara," sagði Maguire á lögreglustöðinni samkvæmt ákæruvaldinu í Grikklandi. Hann og bróðir hans voru dæmdir sekir um að hafa reynt að múta lögreglumönnum.

Alex Bruce, fyrrum liðsfélagi Maguire, segir að það sé algjört bull að Maguire hafi reynt að múta lögreglumönnum, hann sé ekki þannig einstaklingur. Aðrir sem þekkja Maguire hafa tekið í sama streng.

Maguire neitaði allri sök í málinu en hann var ekki viðstaddur réttarhöldin. Lögmaður Maguire reyndi að halda því fram að leikmaðurinn og aðrir sakborningar hefðu orðið fyrir barðinu á lögregluofbeldi. Hann reyndi einnig að fresta réttarhöldunum þar sem hann fékk ekki nægilega mikinn tíma til undirbúnings en fékk því ekki framgengt.

Líklegt þykir að Maguire þurfi að greiða háa sekt frekar en að hann þurfi að fara í fangelsi.

Hinn 27 ára gamli Maguire var í dag valinn í enska landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Íslandi á Laugardalsvelli í þarnæstu viku.
Athugasemdir
banner
banner
banner