Brasilíska fótboltasambandið hefur sett sig aftur í samband við Carlo Ancelotti varðandi landsliðsþjálfarastarfið, aðeins tæpum sólarhring eftir 4-1 tapið gegn Argentínu.
GeGlobo segir frá því að þolinmæði stjórnarinnar fyrir Dorival Junior, þjálfara landsliðsins, er að renna á þrotum eftir að Brasilía tapaði fyrir Argentínu, 4-1, í nótt.
Kallað er eftir breytingum í sumar og er Carlo Ancelotti áfram efstur á blaði.
Möguleiki er á því að Ancelotti fari frá Real Madrid í sumar og að Xabi Alonso taki við keflinu. Ítalinn er sagður opinn fyrir því að taka við landsliði í framtíðinni.
Allt veltur þetta á árangri Real Madrid á þessu tímabili. Madrídingar eru enn í titilbarátunni í La Liga, komnir í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar og með annan fótinn í úrslitaleik spænska konungsbikarsins.
Takist Ancelotti að landa nokkrum titlum í lok leiktíðar er svo gott sem öruggt að Florentino Perez, forseti Real Madrid, muni hægja á ráðningarferli nýs þjálfara.
Athugasemdir