Kári
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla þjálfara liðanna í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Kári 39 stig
10. Reynir S. 36 stig
11. Fjarðabyggð 35 stig
12. Völsungur 33 stig
Lokastaða í fyrra: Kári endaði í 7. sæti í fyrra, níu stigum fyrir ofan Víði sem féll. Kára var spáð 8. sætinu í fyrra. Liðinu gekk ekkert sérstaklega í upphafi seinni helmings síðasta árs en var aldrei í neinni fallbaráttu. Kári náði í fjórtán af 25 stigum sínum á heimavelli og voru skoruð um þrjú mörk að meðaltali í leikjum liðsins. Markatalan í lok móts var 33 mörk skoruð og 31 mark fengið á sig.
Þjálfarinn: Ásmundur Guðni Haraldsson var ráðinn þjálfari Kára í lok nóvember eftir síðasta tímabil. Ási er með mikla reynslu úr þjálfun en hann var síðast aðstoðarmaður Ólafs Kristjánssonar hjá FH. Gunnar Einarsson þjálfaði Kára í fyrra en hann þjálfar nú Víking Ólafsvík. Sem leikmaður spilaði Ási með KR, Þrótti R., ÍR, Gróttu, Skínanda, KFG og SR. Sem þjálfari hefur hann meðal annars stýrt Gróttu úr 3. deild í 1.deild og einnig þjálfað lið Skínanda. Hann var og er í dag aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins.
Álit Ástríðunnar:
Hlaðvarpsþátturinn Ástríðan er leiðandi í umfjöllun um 2. deild. Þáttarstjórnendur gefa sitt álit á liðunum fyrir mót.
„Í fyrra voru Akurnesingar oft mikið yo-yo lið. Þjálfaraskipti hafa orðið í vetur en Gunnar Einars sem var með liðið í fyrra færði sig vestur í Ólafsvík og við stýrinu tók Ásmundur Haralds. Kári heldur áfram að vinna metnaðarfullt starf í samstarfi við ÍA og vitað er að sem fyrr breytist lið Kára ár frá ári."
Styrkleikar: „Gömlu mennirnir verða áfram og hafa æft af krafti í vetur. Garðar Gunnlaugs sem komst lítið á strik í fyrra hefur skorað talsvert á undirbúningstímabilinu og gæti reynst dýrmætur. Andri Júl og Jón Vilhelm taka slaginn áfram með ungum og mjög efnilegum skagastrákum sem koma úr ÍA. Það fylgir stemning Káraliðinu hvert sem það fer og þá sérstaklega inni í Akraneshöllinni þar sem stigin eru Káramanna að missa en ekki annarra að sækja. Káraliðið inniheldur sterkan kjarna sem þekkist vel og á því þarf að byggja."
Veikleikar: „Nokkrir lykilmenn frá 2020 hafa horfið á braut. Gunni Einars tók með sér Guðfinn og Mikael í Víking Ó og svo skipti besti leikmaður Kára 2020, Dino Hodzic, nýlega yfir til ÍA. Aron Bjarki kemur í staðin frá ÍA og er efnilegur en ekki með marga leiki á bakinu og sannarlega ekki með jafn sterka nærveru og Dino. Einnig er líklegt að Eggert Kári og Einar Logi spili lítið sem ekkert með Kára í sumar og það verður erfitt að fylla þau skörð. Kára hefur gengið illa að sækja stig út á land síðustu ár og í eins sterkri deild og í ár þá þarf það að breytast."
Lykilmenn: Andri Júlíusson, Páll Sindri Einarsson og Jón Vilhelm Ákason.
Gaman að fylgjast með: Við ætlum að nefna þrjá stráka fædda 2004 og vonum að þeir fái að spila sem mest. Það eru þeir Gabríel Þór, Jóhannes Breki og Ármann Ingi. Jói Breki og Ármann hafa komið við sögu hjá ÍA í vetur og verið mjög sprækir. Gabríel hefur spilað vel í nokkrum leikjum með Kára.
Nokkur orð þjálfarans um félagsskipti vetrarins:
„Nær allar okkar viðbætur koma úr röðum ÍA; annars vegar samingsbundnir leikmenn ÍA (mfl/2. fl. karla) og hins vegar ósamningsbundnir leikmenn 2. flokks karla. Hópurinn samanstendur því af eldri og reynslumeiri leikmönnum Kára auk þessarra yngri leikmanna frá ÍA sem að félagið bindur miklar vonir við. Samstarfið hefur verið eflt til muna og markmiðin skýr hvað varðar stefnu Kára og samstarf við ÍA. Við vonumst til að geta veitt ungum og efnilegum leikmönnum á Skaganum góð tækifæri til þess að öðlast mikilvæga meistaraflokksreynslu til þess að auðvelda stökkið inní Pepsídeildarlið ÍA."
Komnir:
Aron Bjarki Kristjánsson frá ÍA (lán)
Aron Snær Guðjónsson frá ÍA
Ármann Ingi Finnbogason frá ÍA
Birgir Þór Sverrisson frá Skallagrími
Breki Þór Hermannsson frá ÍA
Finnbogi Laxdal Aðalgeirsson frá ÍA
Gabríel Þór Þórðarson frá ÍA
Gylfi Brynjar Stefánsson frá ÍR
Hlöðver Már Pétursson frá Skallagrími
Ísak Örn Elvarsson frá ÍA (lán)
Jóhannes Breki Harðarson frá ÍA (lán)
Júlíus Emil Baldursson frá ÍA (lán)
Leó Ernir Reynisson frá ÍA (lán)
Nikulás Ísar Bjarkason frá ÍA
Farnir:
Aron Ingi Kristinsson í Þrótt R.
Dino Hodzic í ÍA
Elís Dofri G Gylfason í ÍA
Guðfinnur Þór Leósson til Víkings Ó.
Kristófer Daði Garðarsson
Mikael Hrafn Helgason til Víkings Ó.
Ragnar Már Lárusson í Aftureldingu
Sverrir Mar Smárason í ÍH
Fyrstu þrír leikir:
8. maí KF heima
14. maí KV hema
21. maí Reyni S. úti
Athugasemdir