Heimild: Sportbloggið
Pistill af sportbloggid.net
Jürgen Klinsmann, þjálfari Bandaríkjanna, mætir í dag fyrrum aðstoðarmanni sínum hjá þýska landsliðinu, Joachim Löw, en hann þjálfar einmitt Þýskaland í dag. Báðum liðunum nægir jafntefli til að komast í 16 liða úrslitin, en á sama tíma spila Gana og Portúgal. Í ljósi tengsla þjálfaranna hefur því verið velt upp hvort liðin muni leika til sigurs eða hreinlega sætta sig við jafntefli? Gera með sér einhvers konar samning.
Klinsmann hefur sjálfur þverneitað fyrir þetta og segist vilja sigra Þýskaland. Á sama hátt hefur þýskur blaðamaður skrifað merkilega grein um jafntefli og þýska landsliðið. Í þýska tungumálinu er í raun ekki til orð yfir jafntefli, eða draw á ensku, heldur nota Þjóðverjar orðið “Unentschieden”. Það myndi þýðast sem “óákveðið”. Í ljósi þessa er ekki skrítið að Þýskaland gerir afar sjaldan jafntefli í mótsleikjum. Áður en kom að jafnteflinu gegn Gana hafði liðið aðeins tvisvar gert jafntefli í slíkum leikjum frá 2010.
Annars vegar var það hið ótrúlega 4-4 jafntefli gegn Svíþjóð nýverið, þar sem Þýskaland komst í 4-0. Hins vegar var það 1-1 jafntefli við Finnland í undankeppninni fyrir HM 2010. Það má einnig búast við því að Þjóðverjar taki enga áhættu og spili til sigurs, líkt og ávallt, til að tryggja það að liðið sleppi við Belgíu í 16 liða úrslitum og fái frekar “þægilegri” leik gegn Rússlandi eða Alsír. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem svona samsæriskenningar hafa komið upp á yfirborðið og er ein slík stór blettur á þýskri knattspyrnu.
Nichtangriffspak von Gijón – Non aggression pact of Gijón – Disgrace of Gijón
Eins og nafnið gefur til kynna fór leikurinn á milli Þýskalands og Austurríkis á HM 1982 á Spáni fram í borginni Gijón, á El Molinón vellinum þann 25. júní. Leikurinn var síðasti leikur B-riðils, en hin lið hans, Alsír og Síle, höfðu leikið deginum áður. Þar sem ljóst var hvernig sá leikur hafði farið vissu Þjóðverjar að til að komast áfram þyrftu þeir að vinna með einu eða tveimur mörkum, en þeir höfðu tapað mjög óvænt fyrir Alsír í fyrsta leik sínum.
Það tók Vestur-Þjóðverja einungis tíu mínútur að komast yfir, en Horst Hrubesch skoraði mark þeirra. Eftir að markið var skorað má segja að hægst hafi ótrúlega á leiknum. Mjög augljóst var að liðin vissu að þessi úrslit myndu þýða það að bæði Vestur-Þjóðverjar og Austurríki myndu fara áfram á kostnað Alsír. Liðin héldu boltanum innan sinna raða á sínum eigin vallarhelmingi þangað til að andstæðingur kom nálægt boltanum. Þá var einfaldlega sent til baka á markmanninn sem gat á þessum tíma tekið boltann með höndum eftir sendingu frá samherja. Það var ekki fyrr en 1992 sem því var breytt.
Augljóst var að ákveðið hefði verið fyrirfram að leikurinn skyldi enda svona, a.m.k. gerðu leikmenn sér grein fyrir því að þetta myndi nægja liðunum báðum til að komast áfram. Vestur-Þjóðverjar hófu leikinn með miklu sóknarþunga en strax og þeir skoruðu hættu þeir öllu slíku. Áhorfendur voru ekki sáttir. Eins og gengur og gerist í Heimsmeistarakeppninni var stór hluti af þeim frá öðrum þjóðum en löndunum sem voru að spila.
Lítill hópur Alsírsbúa höfðu mætt á leikinn og reiði þeirra skein í gegn, en þeir brenndu Peseta seðla, sem þá var gjaldmiðillinn á Spáni, til að sýna grunsemdir sínar. Spánverjarnir sem voru mættir sýndu einnig hvað þeim fannst um þetta allt saman með því að veifa klútum allan seinni hálfleikinn.
Það var ekki aðeins á Spáni og í Alsír sem mikil reiði kom fram í fjölmiðlum daginn eftir. Í Þýskalandi og Austurríki voru menn ekki á eitt sáttir með þessa spillingu. Eberhard Stanjek, sem lýsti leiknum í þýska sjónvarpinu, var nálægt tárum þegar hann sagði: ,,Það sem er að gerast er skammarlegt og hefur ekkert með knattspyrnu að gera. Þið getið sagt það sem þið viljið, en það er ekki alltaf hægt að segja að tilgangurinn helgi meðalið.” Sá sem lýsti leiknum í austurríska sjónvarpinu var einnig ósáttur. Hann bað fólk einfaldlega um að slökkva á tækjum sínum og neitaði að tala síðasta hálftímann.
Leikmenn liðanna létu gagnrýni almennings, og stuðningsmanna sinna, ekki á sig fá. Þess má geta að þegar stuðningsmenn þýska liðsins komu og mótmæltu fyrir utan hótel liðsins svöruðu leikmennirnir einfaldlega með því að henda í þá vatnsblöðrum. Það er þó ekkert á miðað við þau ummæli sem Hans Tschak, yfirmaður austurríska hópsins, lét frá sér:
,,Að sjálfsögðu var leikurinn í dag leikinn taktískt. En ef 10.000 þúsund synir eyðimerkurinnar, sem eru hér á vellinum, vilja kveikja einhvern skandal þá sýnir það bara að þeir hafa of fáa skóla. Einhver “sheikh”, sem kemur úr einhverri vin og fær að finna lyktina af HM-lofti eftir 300 ár þykist eiga einhvern rétt á að opna kjaftinn á sér.”
Það sem er kannski ótrúlegast við þetta allt saman er að alsírsku leikmennirnir sýndu mikla stillingu. Chaabane Merzekane, bakvörður Alsír, sagði að þeir hefðu verið alveg rólegir: ,,Við vorum ekki reiðir, við vorum alveg rólegir. Að sjá tvö stórlið rústa ímynd sinni svona til þess eins að slá okkur út var hrós fyrir Alsír. Þeir komust áfram með óheilindum, við duttum út með virðingu."
Margir vildu að FIFA gerði eitthvað í málunum og refsuðu liðunum, en það gerðist ekki. FIFA hins vegar gerði breytingar á regluverki sínu. Frá og með þessu skyldu allir leikir í síðustu umferð hvers riðils vera leiknir á sama tíma til að koma í veg fyrir annað eins og gerðist þennan örlagaríka dag í Gijón. Lakhdar Belloumi, sóknarmaður Alsír, segir að það hafi í raun verið betra en sigur: ,,Frammistaða okkar gerði það að verkum að FIFA gerði breytingar og það var jafnvel betra en sigur. Það þýddi að Alsír hafði komist á blöð sögunnar að eilífu.”
Vestur-Þjóðverjar komust alla leið í úrslitaleikinn á Spáni en þurftu að lúta þar í lægra haldi fyrir Ítölum. Þess má geta að besti leikmaður Ítala á mótinu, Paolo Rossi, missti næstum því af keppninni fyrir hlut sinn í “Totonero” skandalnum á Ítalíu. Þar var hann settur í bann árið 1980 fyrir sinn þátt í hagræðingu leikja þegar hann var leikmaður Perugia. Skemmtileg tilviljun. Önnur ótrúleg tilviljun: Hvaða lið mun að öllum líkindum bíða Þjóðverja í 16 liða úrslitum ef þeir vinna riðilinn? Alsír…
Hér má sjá það helsta úr leiknum:
Athugasemdir