Kjartan Kári Halldórsson hefur tekið þá ákvörðun að vera áfram hjá FH en honum stóð til boða að semja við Val eftir að FH samþykkti kauptilboð frá Hlíðarendafélaginu.
Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, hefur verið opinn með það að allir leikmenn séu til sölu fyrir rétt verð og var tilboð Vals, sem hefði gert Kjartan Kára að dýrasta leikmanni sem hefði farið á milli íslenskra félaga, samþykkt af FH.
Davíð þarf þó ekki að sjá á eftir Kjartani, ekki í bilið hið minnsta, þar sem vængmaðurinn ákvað að halda tryggð við FH.
Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, hefur verið opinn með það að allir leikmenn séu til sölu fyrir rétt verð og var tilboð Vals, sem hefði gert Kjartan Kára að dýrasta leikmanni sem hefði farið á milli íslenskra félaga, samþykkt af FH.
Davíð þarf þó ekki að sjá á eftir Kjartani, ekki í bilið hið minnsta, þar sem vængmaðurinn ákvað að halda tryggð við FH.
„Ég vissi að Kjartan væri búinn að vera mjög ánægður hjá okkur, hann hefur fengið traust, hefur borgað það til baka með frábærri frammistöðu og hefur orðið betri eftir því sem á hefur liðið. Auðvitað er gott fyrir okkur að heyra og sjá að hann sé ánægður hér. Við erum í endurbyggingarfasa og hann var einn af okkar allra bestu, ef ekki besti leikmaðurinn okkar á síðasta ári. Það er ótrúlega gott fyrir okkur að halda honum."
Leikur FH snýst mikið um Kjartan Kára
Kjartan er algjör lykilmaður í liði FH, leikmaður sem hægt er að byggja í kringum á meðan hann er áfram í Krikanum.
„Við gerum okkur grein fyrir því að ef kúrfan heldur áfram að vera upp á við hjá honum þá er ekkert langt í að hann fái möguleikann á að komast út aftur. En á meðan hann er ennþá hjá okkur þá er alveg á hreinu að leikur liðsins snýst mikið um hann og hans frammistöðu. Hann kemur að mörgum mörkum, er frábær í föstum leikatriðum og ótrúleg orka sem hann setur í hvern í einn einasta leik. Hann var, er, og verður, einn mikilvægasti leikmaðurinn okkar."
Tímaspursmál hvenær Kjartan fer út
Kjartan var seldur til Haugesund eftir tímabilið 2022 en hlutirnir gengu ekki alveg þar og kom hann í FH fyrir tímabilið 2023. Það er einungis tímaspursmál hvenær hann fer aftur út í atvinnumennsku ef hann heldur áfram að spila eins og hann hefur gert síðustu misseri.
„Hann er þannig týpa, er duglegur að æfa, sér vel um sjálfan sig og hefur metnað fyrir því að bæta sig sem leikmaður. Fyrir mér er ekki spurning hvort hann fari út, heldur hvenær."
Blanda af Lennon og Atla Guðna?
Davíð hefur séð margt á sínum ferli í fótboltanum. Minnir Kjartan Kári þig á einhvern leikmann?
„Góð spurning, ef ég fer í gegnum leikmennina sem spiluðu í svipaðri stöðu með mér hjá FH þá koma upp Atli Guðnason og Steven Lennon. Mér finnst Kjartan reyndar vera allt öðruvísi leikmaður en þeir. Hann er að einhverju leyti blanda af þeim báðum. Hvorugur þeirra var með eins góða löpp og Kjartan Kári er með, en enn sem komið er var meira af mörkum í þeim tveimur. Hann fær tækifæri til að breyta því í sumar."
Í leit að miðverði
FH tilkynnti í dag að Óttar Uni Steinbjörnsson væri búinn að skrifa undir sinn fyrsta samning við FH. Er frekari tíðinda að vænta frá FH?
„Nei, ekkert eins og staðan er núna. Við erum að vinna í okkar málum, frábært að Óttar hafi skrifað undir, frábært að Kjartan Kári verður með okkur í sumar. Svo erum við að skoða stöðuna, Ísak Óli er náttúrulega frá og við erum að skoða miðvarðarstöðuna hjá okkur, hvort það sé einhver þarna úti sem gæti komið og styrkt okkur," segir Davíð.
Athugasemdir